Hvatvíslegar stjórnarskrárbreytingar og ráðlauslega staðið að verki
AMX 3. apríl 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Í dag hófst 2. umræða á Alþingi um frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem flutt er af  forsætisráðherra, fjármálaráðherra, formanni Frjálslynda flokksins og varaformanni Framsóknarflokksins. Við sjálfstæðismenn höfum harðlega gagnrýnt allan aðdraganda og málsmeðferð vegna frumvarpsins, skort á samráði og hroðvirknisleg vinnubrögð. Við höfum lagt á það áherslu, að meira máli skipti að vanda til verka en að ljúka þessum breytingum þegar í stað.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og fylgiflokka þeirra í þinginu hafa sýnt því afar lítinn skilning þegar við höldum þessum sjónarmiðum á lofti og hafa gefið í skyn að á bak við varnaðarorð okkar búi einhverjar annarlegar hvatir.

Þetta er sérstaklega einkennilegur málflutningur af hálfu þessara þingmanna. Viðurkennt er í öllum þroskuðum lýðræðisríkjum að vanda skuli sérstaklega vel til undirbúnings og málsmeðferðar  vegna stjórnarskrárbreytinga. Hvarvetna er lögð sérstök áhersla á að um slíkar breytingar náist sem víðtækust samstaða og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar sé ekki dregin inn í flokkspólitískt dægurþras. Í nýlegum pistli mínum hér á þessum vettvangi vakti ég einmitt athygli á því hvernig Svíar og Finnar hafa staðið að undirbúningi stjórnarskrárbreytinga á síðustu árum. Vinnubrögð þeirra annars vegar og meirihlutaflokkanna á Alþingi hins vegar eru alveg eins og svart og hvítt.

Lesa meira...
 
Skúli Helgason og Evrópu­stefna VG
AMX 29. mars 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Ég hef áður bent á þá miklu mótsögn sem felst í afstöðu Samfylkingarmanna gagnvart samstarfsflokkum sínum í tengslum við Evrópumál. Fyrir fáeinum vikum töldu fjöldamargir talsmenn flokksins alveg ófært að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum nema sjálfstæðismenn gerbreyttu afstöðu sinni til þessara mála og tækju upp áherslur Samfylkingarinnar. Þeir hinir sömu fylltust hins vegar mikilli gleði þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við völdum, þrátt fyrir að ekkert væri í stjórnarsáttmála eða verkefnaskrá þeirrar stjórnar, sem færði þjóðina nær ESB-aðild. Samfylkingarmenn reyndu reyndar í upphafi að halda því fram að einhver ákvæði sáttmálans mætti túlka með þeim hætti, en Vinstri grænir sóru slíkt af sér jafnóðum.
Lesa meira...
 
Fjármálaráðherra ofmetur tekjuauka vegna hátekjuskatts
  • ekki 3,5 til 4 milljarðar heldur 2,7 til 2,9 milljarðar
AMX 27. mars 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði sl. mánudag í viðtali við blaðamenn Morgunblaðsins í Zetunni, nýjum þætti á vefsjónvarpi blaðsins, að tvö ný hátekjuskattþrep sem hann vill koma á geti skilað ríkissjóði tekjuauka upp á 3,5 til 4 milljarða króna. Tillögur Steingríms birtust meðal annars í frumvarpi sem hann lagði fram á haustþingi. Þar var gert ráð fyrir að ofan á allar tekjur yfir 500 þúsund krónum á mánuði legðist nýtt 3% álag á tekjuskatt og að á allar tekjur yfir 700 þúsund krónum á mánuði legðist til viðbótar 5% skattur, þannig að þeir sem slíkar tekjur hafi borgi samanlagt 8% ofan á hinn almenna tekjuskatt.

Þess ber að geta að þessar tillögur lagði Steingrímur fram áður en hann varð fjármálaráðherra, en hins vegar var engin leið að skilja ummæli hans í þættinum öðru vísi en svo að hann væri enn mjög áhugasamur um að hrinda þeim í framkvæmd. Jafnframt kom fram að hann teldi stuðning vera innan Samfylkingarinnar, samstarfsflokks síns í ríkisstjórn, við að gera breytingar í þessu veru. Verði framhald á samstarfi VG og Samfylkingar eftir kosningar geta íslenskir skattgreiðendur þannig reiknað með að verða fyrir auknum byrðum af þessu tagi.
Lesa meira...
 
Stefna VG og túlkunaræfingar Samfylkingarinnar
AMX 25. mars 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa tamið sér þann sérkennilega sið að túlka sífellt stefnumál, ályktanir og yfirlýsingar annarra flokka eins og hentar þeirra eigin málflutningi. Það eru ekki síst samstarfsflokkar Samfylkingarinnar hverju sinni sem verða fyrir þessu eins og við sjálfstæðismenn upplifðum oft í tíð fyrri ríkisstjórnar. Nú er það hins vegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem þarf að búa við stöðugar túlkunaræfingar Samfylkingarmanna af þessu tagi.

Um síðustu helgi hélt VG landsfund sinn og ályktaði eins og við mátti búast um Evrópumál. Fyrir flesta sem lesa þá ályktun er alveg augljóst, að VG hefur ekki breytt um stefnu í þessum málaflokki og að flokkurinn telji sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Einhvern veginn tekst Samfylkingarmönnum hins vegar að lesa eitthvað allt annað út úr ályktuninni. Þeir halda því fram að ummæli sem þar er að finna um að aðild að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu feli í sér mikla opnun af hálfu samstarfsflokks síns. Þetta er sams konar málflutningur hjá Samfylkingunni og heyra mátti í kjölfar myndunar ríkisstjórnarinnar í lok janúar. Þá var sambærilegt orðalag í stjórnarsáttmálanum túlkað með þeim hætti að ríkisstjórnin – og þar af leiðandi VG – væri að galopna fyrir aðildarumsókn að ESB. 
Lesa meira...
 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

JPAGE_CURRENT_OF_TOTAL