Ótæk tillaga um stjórnlagaráð

Morgunblaðið 28. febrúar 2011
Nú lítur út fyrir að á næstu dögum verði lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um að forseti Alþingis skipi 25 manna stjórnlagaráð til að vinna að tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Er það í samræmi við tillögu meiri hluta samráðshóps sem forsætisráðherra skipaði til að fjalla um viðbrögð við þeirri ákvörðun Hæstaréttar að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar í nóvember. Meiri hluti samráðshópsins lagði einnig til að þeir hinir sömu skuli skipaðir í ráðið og fengu á sínum tíma útgefin kjörbréf á grundvelli hinna ógildu kosninga.

Með þessari aðferð væri Alþingi augljóslega að fara hressilega á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Kosningar, sem hafa verið ógiltar, væru notaðar sem grundvöllur fulltrúavals í ráðið. Tillagan felur einfaldlega í sér að úrslit stjórnlagaþingskosninganna eigi að standa, þrátt fyrir ógildinguna. Í þessu sambandi breytir engu þótt nafni samkomunnar verði breytt úr stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð og fulltrúarnir taki við skipunarbréfi úr hendi forseta Alþingis í stað kjörbréfs frá landskjörstjórn. Miðað við útfærða tillögu og greinargerð samráðshópsins er ekki gert ráð fyrir neinum öðrum breytingum. Gert er ráð fyrir að sami hópur hafi með höndum sama verkefni og að öll umgjörð starfsins verði eins eða því sem næst eins. Samþykki Alþingi tillöguna gæti það alveg eins afgreitt frá sér ályktun sem hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að hafa beri að engu ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar 2011.“ Myndu margir alþingismenn treysta sér til að styðja tillögu með slíku orðalagi?

Lesa meira...
 
Eina stefnan sem stjórnarflokkarnir eru sammála um?

Morgunblaðið 7. janúar 2011
Undanfarna daga hefur embætti ríkisskattstjóra birt auglýsingar um ýmsar breytingar á sköttum, sem tóku gildi nú um áramótin. Þessar auglýsingar eru áminning til heimila og fyrirtækja í landinu um þær nýju skattahækkanir, sem þingmenn ríkisstjórnarflokkanna samþykktu nú á jólaföstunni. 

Þar var um að ræða þriðju lotu skattahækkana, sem þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna stóð að á innan við einu og hálfu ári. Fyrstu aðgerðirnar áttu sér stað í júní 2009 og höfðu umtalsverð áhrif bæði á almenning og athafnalíf. Mestu breytingarnar voru hins vegar ákveðnar í desember 2009 og fólu trúlega í sér mestu skattahækkanir á einu bretti í síðari tíma sögu landsins.

Lesa meira...
 
Ríkisstjórnin getur ekki vikist undan ábyrgð

Morgunblaðið 26. janúar 2011
Öllum má vera ljóst að mikið þarf til að koma til að Hæstiréttur ógildi almennar kosningar í landinu. Það hefur nú gerst og fram hjá þeirri niðurstöðu verður ekki komist. Lögin um stjórnlagaþing, sem meiri hluti Alþingis samþykkti síðastliðið sumar, fela Hæstarétti að úrskurða í kærumálum vegna kosninganna. Sú niðurstaða liggur nú fyrir og ákvörðun réttarins er bæði samhljóða og skýr. Þar kemur fram að þeir fjölmörgu annmarkar, sem bent hefur verið á í sambandi við kosningarnar, leiði til ógildingar þeirra. Ógilding kosninganna verður til þess að óbreyttu, að ekki verður af því stjórnlagaþingi, sem gert var ráð fyrir að tæki til starfa í næsta mánuði. 

Lesa meira...
 
Ákæruvald Alþingis og ábyrgð þingmanna

Morgunblaðið 17. september 2010
Í þingræðu á þriðjudaginn sagði Steingrímur J. Sigfússon að þingmenn gætu ekki skorast undan því hlutverki, sem þeim væri falið samkvæmt stjórnarskrá og lögum, að taka afstöðu til þess hvort ákæra eigi fyrrverandi ráðherra. Þetta er auðvitað rétt hjá fjármálaráðherranum svo langt sem það nær, en með því er auðvitað ekki sagt að niðurstaða þingmanna hljóti að verða sú að samþykkja ákærurnar. 

Grundvallarreglur sakamálaréttarfars gilda 

Tvær tillögur liggja nú fyrir Alþingi um að gefa beri út ákærur af þessu tagi og hefja dómsmeðferð fyrir Landsdómi. Til þessara tillagna mun þingið taka afstöðu á næstu dögum. Þingmenn þurfa í þessum málum að svara þeirri erfiðu spurningu hvort gefa skuli út ákærur og setja um leið tiltekna einstaklinga í stöðu sakborninga í refsimáli. Þegar þingmenn gera upp hug sinn verða þeir að hafa í huga sömu sjónarmið og öðrum ákærendum ber að fylgja. Ekki er um það deilt að í málum út af ráðherraábyrgð á að fylgja öllum grundvallarreglum um sakamálaréttarfar að svo miklu leyti sem lögin um Landsdóm kveða ekki sérstaklega á um annað. Þannig verður t.d. að virða almenn réttindi sakborninga, sanna að fyrir hendi séu skilyrði um saknæmi og ólögmæti, gæta að skýrleika refsiheimilda, sýna fram á að meint ólögmæt háttsemi falli undir refsiákvæði og svo má áfram telja. 

Lesa meira...
 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

JPAGE_CURRENT_OF_TOTAL