Hernaðurinn gegn atvinnulífinu

 Eftir Birgi Ármannsson 

Morgunblaðið 21. nóvember 2012

Í orði kveðnu eru flestir sammála um að forsenda hagvaxtar og batnandi lífskjara hér á landi sé að atvinnulífið nái aftur vopnum sínum eftir þau áföll, sem á því hafa dunið undanfarin ár. Velgengni atvinnulífsins er grundvöllur þess að vinna megi bug á atvinnuleysisvanda og fólksflótta, auka kaupmátt alls almennings með varanlegum hætti og tryggja á sama tíma tekjugrundvöll hins opinbera. Án aukinnar fjárfestingar atvinnuveganna, meiri verðmætasköpunar og útflutningstekna er tómt mál að tala um bætt kjör, fleiri störf eða eflingu opinberrar þjónustu á einhverjum sviðum.

Þetta virðist ekki flókið, en síðustu árin hafa stjórnvöldum verið afar mislagðar hendur í þessum efnum. Í stað þess að leggja grunn að nýrri sókn atvinnulífsins hefur núverandi ríkisstjórn reynt að kreista sífellt meira út úr þeim rekstri sem til staðar er, hækkað álögur og þrengt að rekstrarskilyrðum fyrirtækja og beint og óbeint lagt steina í götur nýrra verkefna og fjárfestinga. Frá þessu eru örfáar undantekningar, sem birtast í takmörkuðum ívilnunum til handa einstökum greinum, sem þá og þá stundina njóta velvildar, en atvinnulífið almennt hefur hins vegar orðið fyrir þungum búsifjum vegna hækkandi skatta, aukinnar reglubyrði og verri rekstrarskilyrða. Í þeim tilvikum þar sem ytri skilyrði hafa stuðlað að bættri afkomu, svo sem í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og öðrum útflutningsgreinum, hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar jafnan verið á þá leið að  þyngja byrðarnar, eins og nýlegar og yfirvofandi skattahækkanir eru til vitnis um. Fyrirvaralitlar breytingar, óstöðugleiki í lagaumhverfi og fálmkenndar ákvarðanir stjórnvalda hafa síðan orðið til að bæta gráu ofan á svart fyrir fyrirtækin.

Þessum hernaði stjórnvalda gegn íslensku atvinnulífi verður að linna. Ný lífskjarasókn verður að byggja á traustum grunni. Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að við getum haldið uppi góðu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi. Loforð um eflingu löggæslu og úrbætur í samgöngumálum, svo fleiri dæmi séu nefnd, eru líka óraunhæf nema verðmætasköpun í landinu nái sér á strik.

Á þessu sviði bíða okkar mörg verkefni – og ekki öll einföld eða auðveld. Tækifærin eru hins vegar til staðar. Við verðum að nýta þau.