Rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar?

Eftir Birgi Ármannsson 

Morgunblaðið 16. nóvember 2012

Einhvern næstu daga mun umfjöllun nefnda þingsins um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svokallaða rammaáætlun, ljúka. Útlit er fyrir að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar muni leggja til að áætlunin verði afgreidd óbreytt, í þeirri útgáfu sem hún kom frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Svandísi Svavarsdóttur og Oddnýju Harðardóttur, fyrr á þessu ári. Í því felst tillaga um að málið verði afgreitt í sama ágreiningi og það kom inn til þingsins, án þess að nein alvöru tilraun hafi verið gerð til að ná breiðari samstöðu.

Það er miður, því hugmyndin á bak við alla vinnuna við rammaáætlun hefur verið sú, að gera langtímaáætlun, sem bærilegur samhljómur væri um, þannig að unnt yrði að sjá fyrir sér þróun í orkunýtingu og vernd landsvæða til lengri tíma og gera áætlanir í samræmi við það. Þegar verkefnisstjórn rammaáætlunar og faghópar skiluðu af sér á sínum tíma bundu margir vonir við að svo gæti orðið, enda hafði góð samstaða myndast á þeim vettvangi og ákveðið jafnvægi virtist vera milli ólíkra viðhorfa. Eftir að ráðherrarnir tveir, ríkisstjórnin í heild og þingflokkar VG og Samfylkingar, höfðu farið höndum um málið og gert á því ýmsar breytingar, dvínuðu þær vonir mjög. Verði niðurstaða þingsins sú að samþykkja tillögu ráðherranna án nokkurra breytinga, er hætt við að eðli málsins breytist; að í stað langtímaáætlunar, sem haldið gæti gildi sínu þrátt fyrir stjórnarskipti og kosningar, kemur plagg, sem aðeins er rammaáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Þannig gæti niðurstaða þessa þings orðið áframhaldandi djúpstæður ágreiningur um öll þessi mál, í stað þeirrar víðtæku samstöðu sem að var stefnt í upphafi. Það væri mjög miður. Auðvitað er ekki öll von úti enn, meðan málið er enn til umfjöllunar á Alþingi, en ummæli talsmanna ríkisstjórnarflokkanna síðustu daga eru ekki beinlínis til þess fallin að auka mönnum bjartsýni í þeim efnum.