Óvinir fólksins og andstæðingar lýðræðis

Eftir Birgi Ármannsson 

Birtist á pressunni 17. nóvember 2012

Eftir atkvæðagreiðsluna um frumvarpsdrög stjórnlagaráðs og fleira 20. október hefur átt sér stað talsverð umræða um tillögurnar og afdrif þeirra. Ber að fagna þeirri umræðu, þótt ýmislegt sem sagt hefur verið síðustu vikurnar hefði að skaðlausu mátt koma fram með enn skýrari hætti fyrir atkvæðagreiðsluna.

Vitlaus röð verkáfanga

Þannig hefði verið eðlilegt að niðurstöður fjögurra lögfræðinga, sem fóru yfir frumvarp stjórnlagaráðs og gerðu á því fjölmargar lagatæknilegar breytingar, hefðu komið fram fyrir þann tíma. Slíkt hefði verið afar gagnlegt í ljósi þess að þá hefðu kjósendur getað kynnt sér tillögurnar með þeim 75 beinu breytingartillögum sem lögfræðingarnir leggja til - en ekki án þeirra. Kjósendur hefðu jafnframt átt þess kost að kynna sér margháttaðar viðbótarábendingar og athugasemdir, sem lögfræðingarnir gerðu við tillögurnar, þótt þær féllu utan hins þröngt skilgreinda umboðs, sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar veitti þeim. Ákvörðunin um að láta atkvæðagreiðsluna fara fram áður en hin ítarlega vinna hópsins lægi fyrir var alfarið á ábyrgð meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en varað hafði verið við því, allt frá upphafi, bæði innan þings og utan að með þessu væri verið að stilla verkáföngum upp í vitlausa tímaröð.

Hvorki álagspróf né gæðavottun

Viðbrögðin við vinnu sérfræðihópsins hafa líka verið athyglisverð. Sumir stjórnmálamenn, einkum úr Samfylkingunni, hafa túlkað niðurstöðuna með þeim hætti að lögfræðingarnir hafi gefið tillögum stjórnlagaráðs „heilbrigðisvottorð“, „gæðavottun“ eða að tillögurnar hafi staðist einhvers konar „álagspróf“.

Þetta stenst ekki neina skoðun. Lögfræðingarnir voru ekki beðnir að gera neitt álagspróf og enn síður að gefa tillögunum einkunn eða vottorð. Þeir voru ekki beðnir að láta í ljós álit sitt á því hvort hér væri um góðar tillögur að ræða eða ekki út frá efni þeirra og innihaldi heldur aðeins að lagfæra þær og búa í nothæft frumvarpsform með viðunandi greinargerð - út frá lagatæknilegum forsendum.

Sú vinna skilaði sér eins og áður sagði í 75 breytingartillögum, auk annarra athugasemda, sem eðli málsins samkvæmt hljóta að koma til skoðunar á síðari stigum vinnunnar. Raunar má segja að hinar kurteisislegu ábendingar hópsins feli í sér alvarlegar viðvaranir um að margt í hinum efnislegu tillögum stjórnlagaráðs þurfi að fá mun betri umræðu og skoðun áður en afgreiðslu málsins lýkur. Skiptir sennilega mestu máli í því sambandi, að lögfræðingarnir benda á að ekkert skipulegt og heildstætt mat á áhrifum tillagnanna hafi farið fram, en gera verði ráð fyrir að slíkt mat verði gert á meðan málið verði til umfjöllunar á Alþingi.

Fræðimenn gegn „stjórnarskrá fólksins“?

Viðbrögð sumra þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar við niðurstöðu sérfræðinganna voru með öðrum orðum einkennileg og í litlu samræmi við afraksturinn af vinnunni. Enn einkennilegri voru þó viðbrögðin við ráðstefnu á vegum nokkurra háskóla og háskólastofnana, sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands í síðustu viku. Þar kom fram hörð en vel rökstudd gagnrýni af hálfu viðurkenndra fræðimanna í lögfræði og stjórnmálafræði á marga þætti málsins, ekki síst á vinnubrögðin og ferlið í sambandi við stjórnlagaráðstillögurnar og atkvæðagreiðsluna 20. október.

Þessari gagnrýni var fyrst og fremst svarað með stóryrðum og skætingi um „svokallaða fræðimenn“, sem væru í „fílabeinsturni“ og væru að reyna að eyðileggja „stjórnarskrá fólksins“. Jafnvel var fullyrt að þessar athugasemdir kæmu of seint fram, sem auðvitað er ekki rétt eins og þeir vita, sem fylgst hafa með umræðum um málið allt frá því stjórnlagaráð skilaði af sér í fyrrasumar.

Umræddir fræðimenn - og raunar fjölmargir aðrir – höfðu komið alvarlegum athugasemdum á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd strax á síðasta þingi – og margir líka tjáð sig á opinberum vettvangi, á opinberum fundum og í fjölmiðlum. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar – og meiri hluti þingmanna – vissi því eða mátti vita af öllum þeim athugasemdum og sjónarmiðum, sem fræðimennirnir komu á framfæri á háskólafundinum. Það var hins vegar ákvörðun þessa sama meiri hluta, að hunsa öll aðvörunarorð og rökstuddar athugasemdir, af því það þótti ekki henta út frá einhverjum pólitískum hagsmunum.

Vonandi málefnaleg umræða

Vonandi verður ekki tekið með sama hætti á athugasemdum og ábendingum lögfræðinganna, sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar valdi til að fara yfir tillögurnar, og fjallað er um hér að framan.

Við verðum að treysta því að þessi sjónarmið komi til vandlegrar skoðunar, nú þegar málið er að koma til efnislegrar umfjöllunar á Alþingi. Vonandi verður líka hægt að ræða málefnalega um aðrar ábendingar og athugasemdir, sem áður hafa komið frá öðrum sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar og fleiri fræðigreina. Fjöldamargar slíkar hafa komið fram í umsögnum og álitsgerðum frá því stjórnlagaráð skilaði af sér í fyrra. Loks verðum við að vona, að einnig gefist kostur á að ræða aðrar útfærslur stjórnarskrárbreytinga, t.d. að áfangaskipta breytingunum, taka fyrst fyrir áríðandi breytingar, sem samstaða gæti náðst um - og geyma þau ákvæði eða kafla, sem þarfnast nánari skoðunar, umræðu og greiningar.

Vonandi verður hægt að taka þá umræðu á málefnalegum forsendum, án þess að þeir sem vilja varlega fara og vanda til verka verði kallaðir uppnefnum á borð við „andstæðinga lýðræðis“ eða „óvini þjóðarinnar“, en gífuryrði af því tagi hafa sem kunnugt er verið helsta framlag sumra stuðningsmanna tillagna stjórnlagaráðs til umræðunnar að undanförnu.