Mikilvægt innlegg McKinsey og félaga

 Eftir Birgi Ármannsson 

Birtist í Viðskipablaðinu 8. nóvember 2012

Skýrsla hins alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækis McKinsey & Co. um Ísland, sem kynnt var fyrir stuttu, var athyglisverð um margt. Greining fyrirtækisins á veikleikum íslenska hagkerfisins er mikilvægt framlag til umræðna um þessi mál og sama má segja um umfjöllun þess um sóknarmöguleikana. Það atriði í skýrslunni, sem valdið hefur mér mestri umhugsun undanfarna daga, er þó tillaga skýrsluhöfunda um víðtækt samráð stjórnmálamanna, lykilstofnana og hagsmunasamtaka um nokkurs konar vaxtaráætlun fyrir Ísland. Með því er lagt til að þessir aðilar, stjórnmálamenn úr öllum flokkum, mikilvægar stofnanir á vegum stjórnvalda og samtök bæði fyrirtækja og launþega, taki sig saman um stefnumótun, sem hafi það að markmiði að auka kraftinn í íslensku efnahagslífi og stuðla að bættum lífskjörum til lengri tíma litið.

Þetta er auðvitað ekki frumleg hugmynd. Dæmi um víðtækt samráð af þessu tagi eru þekkt frá fyrri tíð - stundum með góðum árangri og stundum ekki - og raunar hafa ýmsir aðrir orðað svona hugmyndir á allra síðustu árum. Og auðvitað er líka útlátalítið fyrir hvern sem er að tala um samráð af þessu tagi en þrautin þyngri að hrinda því í framkvæmd.

Það breytir þó ekki því, að hér er um mikilvægt og þarft innlegg að ræða.

Í fyrsta lagi er þetta mikilvægt vegna þess að undanfarin ár hefur sárlega skort samráð af þessu tagi og veikburða tilraunir í þá  átt hafa fljótlega farið út um þúfur. Samtök bæði atvinnurekenda og launþega hafa ítrekað rekið sig á að núverandi stjórnvöld hafa annað hvort ekki haft getu eða vilja til að standa við yfirlýsingar sínar og fyrirheit með þeim afleiðingum að samskipti þessara aðila einkennast í dag af tortryggni og vantrausti.

Í annan stað er þetta mikilvæg tillaga í ljósi þess að á vettvangi stjórnmálanna hafa undanfarin ár einkennst í alltof ríkum mæli af því að menn hafa lagt áherslu á ágreiningsmálin; það sem sundrar en ekki það sem sameinar. Áherslur ríkisstjórnarflokkanna á þingi hafa um of verið til þess fallnar að dýpka og breikka bilið milli manna og flokka en ekki til að ná þeim saman um sameiginleg markmið. Tilraunir til þverpólitísks samstarfs hafa iðulega runnið út í sandinn vegna þess að ráðandi öfl eru uppteknari af því að vinna hugmyndafræðilega sigra heldur en að finna praktískar lausnir, sem samstaða gæti náðst um. Óbilgirni af þessu tagi hefur svo aftur kallað á hörð viðbrögð stjórnarandstöðu í ýmsum málum með þeim afleiðingum að allir hafa grafið sig dýpra í skotgrafirnar.

Í þriðja lagi er innlegg McKinsey sérstaklega tímabært í ljósi þess að stjórnmálaumræðan hér á landi hefur að undanförnu litast meira af því að menn hafa horft í baksýnisspegilinn frekar en að velta fyrir sér möguleikum og stefnumörkun til framtíðar. Auðvitað er mikilvægt fyrir alla að læra af mistökum fyrri ára og gera upp fortíðina, eins og sagt er, en á einhverjum tímapunkti verða menn líka að fara að horfa fram á við. Við bætum ekki afkomu heimila og fyrirtækja til framtíðar litið meðan öll orkan fer í endalausar deilur um það hver sagði hvað við hvern fyrir október 2008.

Í fjórða og síðasta lagi eru áherslur McKinsey skynsamlegar vegna þess að þær draga fram mikilvægi þess að við sættum okkur ekki við stöðnun í efnahagslegu tilliti heldur leitum í sameiningu leiða til að ýta undir hagvöxt, bæta starfsumhverfi atvinnulífsins, styrkja innviði, auka verðmætasköpun, fjárfestingu og framleiðni, - allt með það að markmiði að lífskjör almennings í landinu verði samanburðar- og samkeppnishæf við það sem best gerist í þeim löndum, sem við bæði viljum bera okkur saman við.