Jólasveinarnir eru snemma á ferðinni í ár

 Eftir Birgi Ármannsson 

Birtist á pressunni 8. nóvember 2012 

Helsta frétt dagsins í flestum fjölmiðlum var sú að ríkisstjórnin „hafi tryggt fjármögnun“ fjárfestingaráætlunar sinnar til næstu ára. Fjármálaráðherra og varaformenn ríkisstjórnarflokkanna efndu til blaðamannafundar í morgun og greindu þar frá verkefnum fyrir rúma sex milljarða króna, sem fá eiga viðbótarfjármagn á fjárlögum 2013. Um leið var getið um ákveðin útgjaldaáform fyrir árin 2014 og 2015. Um er að ræða talsverðan fjölda verkefna, sem flest hafa á sér jákvæðan blæ, en um fjármögnunina er það eitt sagt að hún verði tryggð með arðgreiðslum vegna eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum og sölu eigna. Uppsetningin er með þeim hætti, að þessir ágætu stjórnmálamenn eru látnir birtast almenningi eins og góðgjarnir jólasveinar, sem koma til byggða aðeins á undan áætlun og útdeila gjöfum til þægu barnanna.

 Hver tryggir fjármögnun ríkisútgjalda og hvernig?

Nú má spyrja almennt hvernig ríkisstjórn tryggi fjármögnun einstakra verkefna og þar með hvað raunverulega sé hæft í þeirri fullyrðingu að fjármögnun fjárfestingaráætlunarinnar sé tryggð til næstu ára. Staðreyndin er sú að útgjöld ríkisins eru ekki ákveðin á blaðamannafundum á vegum ríkisstjórnarinnar eða þeirra stjórnmálaflokka, sem að henni standa. Framlög eru tryggð með afgreiðslu fjárlaga á Alþingi að lokinn venjulegri þinglegri meðferð. Miðað við starfsáætlun þingsins er ekki við því búist að fjárlög næsta árs verði samþykkt fyrr en eftir rúman mánuð. Önnur og þriðja umræða um fjárlagafrumvarpið eru eftir, talsvert nefndarstarf og margar atkvæðagreiðslur. Það sem nú virðist hafa gerst er það eitt að ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að leggja tilteknar breytingartillögur fram í aðdraganda 2. umræðu, sem áætlað er að fari fram 22. nóvember nk. Til viðbótar þeim fjárveitingum fyrir árið 2013, sem þarna er rætt um, er eins og áður sagði líka að finna áform um ráðstöfun fjármuna á árunum 2014 og 2015, en eðli málsins samkvæmt er varla hægt að ræða slíka tillögugerð í alvöru nú á þessu hausti. Þar er bara um að ræða óljós loforð inn í framtíðina, sem enginn veit hvort núverandi stjórnarflokkar verða í nokkurri aðstöðu til að efna.

 Eru þetta ekki bara venjulegar breytingartillögur?

Venjulega eru svona tillögur, sem koma fram bæði við 2. og 3. umræðu um frumvarp til fjárlaga, bara kallaðar breytingartillögur. Nú dugar hins vegar ekkert annað en að kalla þetta fjármögnun fjárfestingaráætlunar og efna til sérstaks blaðamannafundar af því tilefni. Ef upphæðin, sem lagt er til að varið verði til þessara verkefna á næsta ári er skoðuð í heildarsamhengi ríkisfjármálanna, sést að hér er aðeins um að ræða um það bil 1% aukningu á útgjöldum. Slíkar breytingar hafa oft og iðulega verið gerðar á áformum um útgjöld samkvæmt fjárlagafrumvarpi, án þess að efnt hafi verið til sérstakrar fjölmiðlaveislu af því tilefni. Undanfarin ár hafa jafnan orðið miklar breytingar á bæði tekju- og útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins milli umræðna. Það er hinn venjulegi gangur mála. Það eru því hvorki ný né óvenjuleg tíðindi að framlög til einhverra tiltekinna verkefna eða framkvæmda breytist með þeim hætti, sem þessi svokallaða trygging fyrir fjármögnun felur í sér.

 Hefðbundinn pólitískur spuni og sjónarspil

Framsetning málsins af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er þannig fyrst og fremst bara hefðbundinn pólitískur spuni – en því miður virðast flestir fjölmiðlar hafa gleypt við honum nokkuð hráum. Umfjöllunin er að mestu á forsendum ríkisstjórnarinnar og þegar talsmönnum stjórnarandstöðuflokka er gefinn kostur á að tjá sig er þeim stillt upp við vegg og þeir spurðir: „Eru þetta ekki góð verkefni sem vert er að styðja? Er ekki gleðiefni að tekist hafi að tryggja fjármögnun þeirra?“ Til að gæta ákveðinnar sanngirni í garð fréttamanna verður þó að geta þess að sums staðar hefur komi fram með varfærnum hætti, að nú styttist í kosningar og jafnvel prófkjör hjá einstökum flokkum í einstökum kjördæmum – og þessi tillögugerð og tímasetning hennar gæti hugsanlega tengst því með einhverjum hætti. Þannig vangaveltur eru þó ekki látnar skyggja á aðalatriðið; að ríkisstjórnin hafi af gæsku sinni og framsýni tryggt fjármögnun merkilegra fjárfestingarverkefna.

Loforðalistinn frá ríkisstjórninni í þessum tillögum er langur en spurning hvort innistæða er fyrir honum. Reynslan af fyrri loforðum ríkisstjórnarinnar er að flestra mati frekar slæm. Það er hins vegar of snemmt að spá nokkru fyrir um þennan loforðalista. Reynslan ein getur skorið úr um hvort forsendur fjármögnunar hans eru raunhæfar og hvort peningunum verður raunverulega varið til þeirra verkefna, sem þar eru tilgreind.

 Er þetta rétt forgangsröðun?

Það á líka eftir að koma í ljós, hvort Alþingi er sammála þeim áherslum og þeirri forgangsröðun, sem kemur fram í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þingmenn eiga eftir að bera þessar tilteknu tillögur saman við aðrar breytingartillögur, sem eiga eftir að koma fram í fjárlagaferlinu. Það getur vel verið að meiri hluti þingsins telji frekar ástæðu til að setja meiri peninga í tækjakaup og starfsemi sjúkrastofnana eða eflingu löggæslu frekar en í Kvikmyndasjóð eða innviði friðlýstra svæða. Það getur vel verið að þingmenn hafi meiri áhuga á því að efla framhaldsskólana eða háskólana heldur en að setja milljarða í illa skilgreind verkefni, sem kennd eru við hið svokallaða græna hagkerfi. Sumir kynnu jafnvel að vilja nota þessa fjármuni til að greiða niður skuldir ríkissjóðs eða nýta svigrúm til að lækka skatta. Allt á það eftir að skýrast.

Hitt má öllum vera ljóst, að það er ekki neitt vit í að taka þessar tillögur og fjármögnun þeirra út fyrir sviga og láta eins og þær séu ekki í neinu samhengi við tekjur og gjöld ríkisins að öðru leyti. Umræður á slíkum forsendum eru til þess eins fallnar að villa um fyrir fólki.

 Birgir Ármannsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.