Stöðugleiki í skattamálum?

Eftir Birgi Ármannsson 

Morgunblaðið 8. nóv 2012 

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum snemma árs 2009 hafa verið gerðar vel yfir 100 breytingar á skattalögum. Talningin er ekki nákvæm, enda eru breytingarnar það margar og tíðar að erfitt er að henda reiður á stöðunni, jafnvel fyrir þá sem hafa að aðalstarfi að fylgjast með skattlagningu og skattframkvæmd.

Margar þessara breytinga hafa falið í sér umtalsverðar breytingar á skatthlutföllum, komið hefur verið á ýmsum nýjum sköttum og tæknilegri útfærslu annarra breytt. Tímabundnir skattar hafa verið lagðir á og þeir síðan framlengdir aftur og aftur. Nýjum og nýlegum skattareglum hefur verið breytt, jafnvel aðeins fáum mánuðum eftir að þær voru fyrst samþykktar. Flestar þessara breytinga – en þó ekki alveg allar – hafa falið í sér þyngri álögur og aukið óhagræði fyrir skattgreiðendur og gildir þá einu hvort um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki.

Í upphafi létu forystumenn ríkisstjórnarinnar í veðri vaka að strax og fyrstu tekjuöflunaraðgerðum ríkisins væri lokið yrði ráðist í víðtækt samráð við bæði stjórnarandstöðu og hagsmunasamtök fyrirtækja og launþega um víðtæka endurskoðun skattkerfisins. Mátti skilja yfirlýsingarnar svo að ætlunin væri að leita samstöðu um breytingar út frá heildstæðri skoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Á þeim tíma sem liðinn er hefur hins vegar lítið farið fyrir samráði og samstarfi af þessu tagi. Ekki hefur verið um neitt þverpólitískt samstarf að ræða og samráð við atvinnulífið og launþegahreyfinguna hefur verið í lágmarki. Að því marki sem um eitthvað samstarf hefur verið að ræða hefur blekið varla verið þornað á pappírunum áður en ríkisstjórnin hefur svikið fyrirheit sín.

Afleiðingarnar af þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar hafa auðvitað verið margvíslegar. Skattgreiðendur finna auðvitað fyrir skattahækkunum með ýmsum hætti, skattkerfið hefur orðið flóknara og óvissa aukist. Það er miklu erfiðara en áður fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki að gera áætlanir og taka ákvarðanir um fjárhagsleg málefni sín vegna þeirrar stöðugu óvissu sem fylgir tíðum skattbreytingum.

Brýnt er að breyta um stefnu á þessu sviði. Skattalækkanir, sem nýtast bæði heimilum og atvinnulífinu, eru mikilvægur liður í þeirri efnahagslegu endurreisn, sem ráðast verður í á næstu misserum. En það er líka nauðsynlegt að breyta vinnubrögðunum. Tíðar og tilviljanakenndar skattbreytingar verða að heyra sögunni til. Þess í stað verður að móta langtímastefnu á þessu sviði, sem gerir skattgreiðendum mögulegt að gera ráðstafanir í sæmilegri vissu um að forsendunum verði ekki kollvarpað með skyndiákvörðunum ríkisstjórnar og meirihlutans á þingi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.