Fjárlagafrumvarp, sóknargjöld og þjóðkirkjan

Morgunblaðið, 3. nóvember 2012

Undanfarnar vikur hafa margir innan þjóðkirkjunnar, bæði lærðir og leikir, vakið athygli á þeim áformum um niðurskurð framlaga til kirkjunnar, sem birtast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir áframhaldandi skerðingum á framlögum til kirkjunnar, meðal annars með þeim hætti að í stað þess að innheimt sóknargjöld skili sér að fullu til kirkjunnar – og raunar annarra trúfélaga í réttum hlutföllum – taki ríkið sjálft sífellt meira til sín.

Með öðrum orðum er gert ráð fyrir því að talsverðar upphæðir séu innheimtar af borgurunum á þeirri forsendu að um gjöld til sókna og trúfélaga sé að ræða, en aðeins hluti þeirra fjármuna skili sér síðan til þessara aðila. Þannig hefur fyrirkomulagið verið undanfarin 3-4 ár og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að framhald verði á þessu á næsta ári. Eins og gefur að skilja hefur þessi þróun komið verulega niður á starfinu í sóknunum, ekki síst mikilvægu félagsstarfi, meðal annars barna- og æskulýðsstarfi, starfi með öldruðum og tónlistarstarfi, svo nefnd séu nokkur dæmi.

Í þessu sambandi er rétt að minna á, að sóknargjöldin eru að uppruna og eðli ekki venjulegur skattur til ríkisins, sem ríkið getur síðan ráðstafað til einstakra stofnana eða verkefna samkvæmt ákvörðun á fjárlögum. Gjöldin eru sérstaks eðlis – nær því að vera nokkurs konar félagsgjöld. Á þessu er auðvitað mikill munur. Ríkið er að sönnu innheimtuaðili sóknargjaldanna lögum samkvæmt, en varðandi ráðstöfun þeirra er það bundið bæði af sérlögum á þessu sviði og sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju frá því fyrir 15 árum.

Nauðsynlegt er að minna á að samkomulagið frá 1997 um fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju átti sér langan aðdraganda og fól í sér mikilvægt skref í þá átt að auka sjálfstæði kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu. Sú stefnumörkun, sem birst hefur í fjárlögum síðustu ára og kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs, gengur raunverulega gegn grundvallarforsendum þess samkomulags. Þetta er raunar viðurkennt í greinargerð fjárlagafrumvarpsins því þar segir:

„Til þess að breytingar á fjárveitingum til þjóðkirkjunnar gangi eftir er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, þar sem kveðið er á um forsendur fyrir greiðslum ríkisins til kirkjunnar. Jafnframt þarf að gera samsvarandi breytingu á samkomulagi ríkis og kirkju frá árinu 1997.“

Ég hef ekki orðið þess var að talsmenn ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi hafi gert grein fyrir forsendum sínum fyrir því að gera tillögur af þessu tagi í fjárlagafrumvarpinu. Rétt er að minna á að þótt fjármálaráðherra leggi frumvarpið fram hefur það hlotið samþykki bæði í ríkisstjórn og þingflokkum áður en það kemur fyrir Alþingi. Ég hef ekki orðið þess var að þingmenn stjórnarflokkanna hafi nokkurs staðar upplýst um það hvort þeir eru tilbúnir til að gera breytingar á þessum þætti frumvarpsins, nú þegar málið er til meðferðar á þingi. Ekki hef ég heldur orðið þess var, að fyrir þingið hafi verið lagðar neinar tillögur um breytingar á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar eða á samkomulagi ríkis og kirkju frá 1997, sem vísað er til hér að framan. Er til of mikils mælst að ríkisstjórnarflokkarnir útskýri áform sín um breytingar á samskiptum ríkis og kirkju að þessu leyti?