Viltu skrifa upp á óútfylltan víxil?

Morgunblaðið, 19. október 2012

Ýmsir áróðursmenn fyrir tillögum stjórnlagaráðs hafa að undanförnu látið eins og eina leiðin til að koma í gegn einhverjum breytingum á stjórnarskránni sé að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs eins og þær liggja nú fyrir. Er með því gefið í skyn að þeir sem mikinn áhuga hafa á að breyta einhverju í stjórnarskránni, kannski bara einu, tveimur eða þremur atriðum, eigi ekki annarra kosta völ en samþykkja allan pakkann. Annars muni ekkert gerast.

Auðvitað er ekkert fjær sanni. Stjórnarskránni hefur oft verið breytt á undanförnum áratugum. Á lýðveldistímanum hefur meiri hluta þeirra ákvæða sem nú standa í stjórnarskránni verið breytt, stundum í veigamiklum atriðum. Ekkert kemur í veg fyrir að slíkt vinnulag verði viðhaft áfram. Með því að áfangaskipta verkinu gefst miklu betri kostur á að fara vel yfir og greina sérhvert álitaefni, sem upp kemur, ræða það í þaula og komast að niðurstöðu, sem flestir geta sætt sig við. Aðstæður til svona yfirferðar, bæði fræðilegrar og pólitískrar, eru auðvitað ekki fyrir hendi þegar í einu lagi eru lagðar til breytingar á öllum 80 ákvæðum núgildandi stjórnarskrár og 35 nýjum er bætt. við. Umræður undanfarinna vikna sýna það og sanna, að fjöldamörg álitamál í tillögum stjórnlagaráðs - sum þeirra veigamikil og jafnvel afdrifarík - hafa litla sem enga umræðu fengið. Sennilega á það við um flest ákvæðin.

Og þótt önnur hafi vissulega komist á dagskrá er langt í land að sú umræða sé komin á þann stað að nokkuð samkomulag sé í augsýn. Það er ekki einu sinni kominn sameiginlegur skilningur á mörgum tillögunum, sem frá stjórnlagaráði komu. Menn leggja t.d. enn afar mismunandi skilning í ákvæði um kosningar og kjördæmi, ákvæðin um forsetaembættið, kirkjuskipanina, fullveldisframsalið og svo má lengi telja. Mikilvægur kafli eins og mannréttindakaflinn, sem lagt er til að breytist verulega - og ekki alltaf til góðs, hefur nær enga umræðu fengið.

Það er því býsna bratt hjá ákveðnum hópi þeirra sem sátu í stjórnlagaráði, og þingmönnum Samfylkingar og VG að hvetja fólk til að segja já við fyrstu spurningunni á laugardaginn. Þegar kjósendur eru þannig beðnir um að samþykkja að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá er hreinlega verið að biðja þá að skrifa upp á óútfylltan víxil.