Enn ein blekkingin í stjórnarskrármálinu

Morgunblaðið 17. oktober 2012

Ég hef að undanförnu orðið þess var að sumir stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs telja að 111. gr. í tillögum ráðsins feli í sér "meiri vörn" gagnvart fullveldisframsali en felst í núgildandi stjórnarskrá. Hefur því jafnvel verið haldið fram að verði stjórnarskránni ekki breytt geti Alþingi ákveðið inngöngu í ESB án nokkurrar aðkomu þjóðarinnar. Með tillögu stjórnlagaráðs sé þó a.m.k. tryggt að slíkt skref verði ekki stigið nema í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjónarmið í þessa átt hafa m.a. heyrst nýlega frá stjórnlagaráðsliðunum fyrrverandi, Þorvaldi Gylfasyni og Eiríki Bergmann Einarssyni.

Hér er hlutunum snúið á hvolf, svo ekki sé meira sagt. Ég læt hér liggja milli hluta að allir flokkar hafa lýst því að ekki kæmi til ESB-aðildar nema í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla að halda mig við lögfræðina. Undanfarna tvo áratugi að minnsta kosti hefur verið um það samstaða meðal fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar að innganga í ESB væri beinlínis óheimil nema að undangenginni stjórnarskrárbreytingu. Álitamál hafa vissulega verið uppi um heimild löggjafans til framsals ríkisvalds í einstökum, afmörkuðum tilfellum, en mér er ekki kunnugt um neinn sérfræðing á þessu sviði sem heldur því fram að við getum gengið í ESB án þess að breyta stjórnarskránni fyrst. Fullyrðingar um annað byggjast í því annað hvort á fullkominni vanþekkingu á öllu því sem ritað hefur verið um þessi efni á fræðilegum vettvangi eða lýsir hreinum ásetningi til að villa um fyrir fólki. Hvort tveggja er afar slæmt þegar rangfærslunum er haldið fram af mönnum sem telja sig þess umkomna að segja öðrum hvernig stjórnarskráin eigi að vera.

Fyrir stuttu sagði ég í grein á þessum vettvangi að vel kæmi til álita að setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilaði takmarkað framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana að ströngum skilyrðum uppfylltum. Jafnframt kom fram að ég teldi 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs of opna í þessu sambandi þar sem hún ætti að ná yfir bæði mjög afmörkuð tilvik framsals ríkisvalds og jafnframt það víðtæka fullveldisframsal sem fælist í ESB-aðild. Eins vantaði í ákvæðið skilyrði um lágmarksþátttöku eða lágmarksstuðning við slíkt framsal. Ég benti á að það væri betra að stuðningsmenn ESB-aðildar gengju hreint til verks og legðu fram tillögu um ákvæði sem beinlínis heimilaði inngöngu í ESB, ef það væri það sem þeir raunverulega vildu.

En hvort sem menn eru stuðningsmenn ESB-aðildar eða ekki, og hvort sem menn styðja tillögur stjórnlagaráðs eða ekki, er lágmark að menn byggi rökstuðning sinn á staðreyndum og óumdeildum túlkunum fræðimanna, en ekki á uppspuna eða hreinum misskilningi.