Blekkingar í umræðum um stjórnarskrártillögur

Morgunblaðið, 12. október 2012

Það hefur oft vakið undrun mína í umræðum um tillögur stjórnlagaráðs og atkvæðagreiðsluna 20. október hve sumir stuðningsmenn tillagnanna eru tilbúnir til að seilast langt í málflutningi sínum. Ég hef áður á þessum vettvangi vakið athygli á ákveðnum rangfærslum og villandi málflutningi um að núgildandi stjórnarskrá væri bara stjórnarskrá danska konungsveldisins frá 19. öld og að Alþingi hefði aldrei reynst færst um að breyta stjórnarskránni. Hvorugt stenst skoðun, en er þó endurtekið hvað eftir annað í opinberri umræðu.

En misskilningurinn og blekkingarnar ná til fleiri atriða. Þannig er því hvað eftir annað haldið fram að tillögur stjórnlagaráðs séu í raun og veru bara niðurstöður þjóðfundar, sem haldinn var haustið 2010, færðar í frumvarpsbúning. Hvað sem um þjóðfundinn má segja, hlýtur öllum sem kynna sér niðurstöður hans að vera ljóst, að þar voru fyrst og fremst sett fram almenn sjónarmið og meginhugmyndir. Vissulega má segja að margt í tillögum stjórnlagaráðs rúmist innan þessara almennu sjónarmiða, en það má líka líta svo á að nákvæmlega sömu sjónarmið búi í meginatriðum að baki núgildandi stjórnarskrá. Þau eru líka svo almenn og víðtæk, að á grunni þeirra hefði mátt leggja til fjöldamargar aðrar útfærslur af stjórnarskrárbreytingum, verulega frábrugðnar tillögum stjórnlagaráðs. Raunar eru til tvær mismunandi tillögur að nýrri stjórnarskrá, sem svokölluð stjórnlaganefnd skilaði af sér milli þjóðfundar og funda stjórnlagaráðs, sem líka má segja að byggi á grunni þeirra hugmynda sem ræddar voru á þjóðfundinum. Raunar má halda því fram með góðum rökum, að þessar mismunandi tillögur stjórnlaganefndar séu hvor um sig bæði trúrri niðurstöðum þjóðfundar og mun betri frá faglegu og fræðilegu sjónarmiði heldur en sá texti sem frá stjórnlagaráði kom. Það er því ekki að furða að þeir sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar, sem störfuðu í stjórnlaganefndinni, hafa verið afar gagnrýnir á niðurstöður stjórnlagaráðs.

Um þetta mætti hafa langt mál, en niðurstöðuna má draga saman með eftirfarandi hætti: Það er hrein firra og stenst enga skoðun að atkvæðagreiðslan 20. október snúist á einhvern hátt um starf þjóðfundar og stjórnlaganefndar frá 2010 og 2011. Það er svo auðvitað enn meiri firra þegar því er haldið fram að við, sem hyggjumst segja nei við tillögum stjórnlagaráðs, séum með því að greiða atkvæði gegn stjórnarskrá þjóðarinnar eða jafnvel þjóðinni sjálfri. Með því erum við einfaldlega að hafna því að binda okkur við að nota ófullburða drög að stjórnarskrártillögum sem grundvöll frumvarps að nýrri stjórnarskrá. Svo einfalt er það.