Fráleitar fullyrðingar um danska stjórnarskrá og fleira

Morgunblaðið, 4. október 2012

Í umræðum um stjórnarskrárbreytingar og fyrirhugaða atkvæðagreiðslu 20. október nk. hafa allmargar rangar staðhæfingar verið endurteknar hvað eftir annað. Leiðréttingar hafa ítrekað komið fram, meðal annars frá helstu fræðimönnum landsins á þessu sviði, en misskilningur, einfaldanir og rangfærslur skjóta samt hvað eftir annað upp kollinum.

Ein algengasta vitleysan er sú, að við Íslendingar búum ekki við íslenska stjórnarskrá heldur við danska stjórnarskrá, sem Kristján IX. hafi fært okkur 1874. Rétt er að margt í stjórnarskránni 1874 byggði á dönsku grundvallarlögunum frá 1849, en þau byggðu á fyrirmyndum sunnar úr álfunni, ekki síst frá Belgíu, en raunar var einnig byggt á öðrum stjórnarskrám frá fyrri hluta 19. aldar, sem settar voru í kjölfar afnáms einveldis og þróunar lýðræðis og mannréttindaverndar. Ræturnar má að sjálfsögðu rekja til stofnunar Bandaríkjanna og frönsku byltingarinnar, þótt hugmyndirnar séu auðvitað eldri. Grunnurinn er því samevrópskur eða samvestrænn frekar en danskur. Kannski finnst sumum það skipta máli.

Frá 1874 og fram til lýðveldisstofnunar 1944 breyttust mörg stjórnarskrárákvæði - ekki síst til samræmis við breytingar á réttarstöðu Íslands, tilkomu heimastjórnar og þingræðis og loks fullveldis landsins. Þá var um séríslenskar breytingar að ræða, finnist einhverjum það mikilvægt. Umtalsverð breyting var svo gerð með lýðveldisstofnun 1944 og á lýðveldistímanum hafa stjórnarskrárbreytingar sex sinnum verið samþykktar á Alþingi og í þeim hefur falist breyting á meirihluta þeirra greina, sem nú standa í stjórnarskránni. Í mörgum tilvikum hafa þessar breytingar verið umtalsverðar og mikilvægar að efni til.

Nú kann ýmsum að finnast, að þessar breytingar séu þrátt fyrir allt ekki nægar. Það er alveg sjónarmið, sem er umræðu virði. Vel má færa rök fyrir ýmsum endurbótum á núgildandi stjórnarskrá. Hins vegar verður því hvorki haldið fram að Íslendingar búi enn við danska stjórnarskrá Kristjáns IX., né að Alþingi hafi fram til þessa reynst ófært um að breyta stjórnarskránni. Staðhæfingar af því tagi standast enga skoðun og gefa ekki tilefni til þeirra allra þeirra umfangsmiklu breytinga, sem boðaðar eru í tillögum stjórnlagaráðs.

Íslensk stjórnskipunarsaga er auðvitað margþættari en ráða má af þessu stutta yfirliti. Þetta sýnir þó í hnotskurn hversu fráleit sú fullyrðing er, að nú gefist Íslendingum í fyrsta sinn tækifæri til að setja sér íslenska stjórnarskrá í stað þeirrar dönsku. Slíkar fullyrðingar eru engum til sóma, allra síst þeim sem vita betur - eða ættu að minnsta kosti að vita betur.