Tvær ranghugmyndir varðandi atkvæðagreiðsluna 20. október

Morgunblaðið, 29. september 2012

Nú í vikunni var birt á vefsvæði Alþingis kynningarefni vegna ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og fleira. Lagastofnun Háskóla Íslands var fengin til að ganga frá efninu og virðist hafa tekist vel til í mörgum atriðum. Að minnsta kosti er full ástæða til að hvetja þá sem hyggjast taka þátt í atkvæðagreiðslunni til að kynna sér þetta efni, enda gefur það réttari mynd af viðfangsefnum atkvæðagreiðslunnar heldur en sá slagorðaflaumur, sem birst hefur á opinberum vettvangi að undanförnu frá nokkrum fyrrverandi fulltrúum í stjórnlagaráði.

Þrátt fyrir að kynningarefnið sé að mestu gott er ástæða til að gera athugasemdir við tvennt í framsetningu þess. Fyrra atriðið er að á vefsvæðinu er ákvæðum núverandi stjórnarskrár og ákvæðunum í tillögum stjórnlagaráðs stillt upp eins og tveimur valkostum, þannig að ætla má að aðeins sé um tvo kosti að ræða í sambandi við framtíð stjórnarskrárinnar. Hið síðara er að þegar fjallað er um spurningarnar fimm um einstök efnisatriði er í skýringartexta sérstaklega vísað til tillagna stjórnlagaráðs um viðkomandi atriði, þrátt fyrir að spurningarnar séu að orðalagi og inntaki miklu víðtækari og almennari heldur en sá texti, sem frá stjórnlagaráði kom.

Fyrra atriðið ætti að vera auðskilið. Í atkvæðagreiðslunni, sem tímasett hefur verið 20. október, verður ekki kosið á milli núverandi stjórnarskrár annars vegar og tillagna stjórnlagaráðs hins vegar. Að gefa slíkt í skyn er beinlínis rangt. Það er auðvitað alls ekki svo að með því að segja nei við tillögum stjórnlagaráðs væru kjósendur að hafna öllum stjórnarskrárbreytingum í bráð og lengd. Möguleikarnir eru miklu fleiri. Þannig blasir við að hægt er að gera endurbætur á tilteknum ákvæðum eða köflum núgildandi stjórnarskrár án þess að endurskrifa hvert einasta ákvæði hennar frá a til ö og bæta 35 nýjum við. Raunar er slíkt endurbótastarf í áföngum miklu líklegra til að skila bæði víðtækri samstöðu og raunverulegum stjórnarskrárbótum heldur en sú pakkaafgreiðsla, sem tillögugerð stjórnlagaráðs felur í sér. Með því móti er líka hægt að sneiða hjá þeirri víðtæku og alvarlegu stjórnskipunar- og réttarfarsóvissu, sem óhjákvæmilega myndi fylgja samþykkt tillagna stjórnlagaráðs í heild.

Síðara atriðið ætti líka að vera ljóst. Efnisspurningarnar fimm á kjörseðlinum, þ.e. um náttúruauðlindir, þjóðkirkju, jafnt vægi atkvæða, aukið persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur, fela í sér mælingu á afstöðu fólks með miklu opnari hætti en tiltekin ákvæði sem varða sömu eða svipuð efni í tillögum stjórnlagaráðs. Það er augljóst, bæði af orðalagi spurninganna og tilurð þeirra, að ekki er ætlunin að spyrja um afstöðu til þeirrar útfærslu viðkomandi ákvæða, sem finna má í stjórnlagaráðstextanum. Það er því ekki heiðarlegt eða sannleikanum samkvæmt, þegar einstakir fulltrúar úr stjórnlagaráði halda því fram, að segi t.d. meirihluti kjósenda já við spurningunni um jafnt vægi atkvæða eða aukið vægi persónukjörs sé verið að samþykkja útfærsluna í tilsvarandi tillögum stjórnlagaráðs. Sama á raunar við um allar hinar spurningarnar. Þetta getur auðvitað verið ruglingslegt, en sá ruglingur er alfarið á ábyrgð þess meiri hluti alþingis, sem samþykkti spurningarnar á sínum tíma. Á þetta var ítrekað bent við umræður á Alþingi, en lítið hlustað af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar.

Ég hef hér nefnt tvo villandi þætti í framsetningu kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég geri þessi atriði hér fyrst og fremst að umtalsefni, þar sem margt af því sem sagt hefur verið í fjölmiðlaumræðu síðustu vikna hefur verið til þess fallið að villa um fyrir fólki með sama hætti. Vonandi verður hið annars ágæta kynningarefni ekki til þess að ýta undir frekari misskilning í þeim efnum.