Þjóðkirkjan og atkvæðagreiðslan í október

Morgunblaðið, 19. september 2012

Að undanförnu hafa ýmsir orðið til þess að leggja orð í belg um hina sérstöku spurningu um þjóðkirkjuna í þeirri atkvæðagreiðslu, sem innanríkisráðuneytið hefur auglýst að eigi að fara fram 20. október nk. Ljóst er að menn leggja að nokkru leyti mismunandi skilning í spurninguna, eða allt frá því að segja að aðeins sé spurt hvort nefna skuli þjóðkirkjuna á nafn í nýrri stjórnarskrá og yfir í það að spurningin snúist um aðskilnað ríkis og kirkju - jafnvel um tilvist þjóðkirkjunnar sem slíkrar.

Nú er auðvitað viðbúið að hver kjósandi, sem tekur þátt í atkvæðagreiðslunni 20. október, svari þessari spurningu eftir bestu samvisku og í samræmi við sinn skilning á orðalagi hennar. Með því móti kann að vera hægt að draga mjög almennar ályktanir um afstöðu kjósenda til þjóðkirkjuákvæðis í stjórnarskrá, að því tilskyldu að kjörsókn verði góð. Hitt blasir við að í þessari spurningu er ekki verið að spyrja um neina tiltekna útfærslu þjóðkirkjuákvæðis eða ákvæðis um kirkjuskipun að öðru leyti. Í þeim efnum verður áfram fyrir hendi ákveðinn túlkunarvandi.

Málið vandast enn frekar þegar horft er til þess að á öðrum stað á kjörseðlinum er gert ráð fyrir því að kjósendur svari hvort þeir vilji að tillögur stjórnlagaráðs frá síðasta ári verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Stjórnlagaráð leggur til að öllum ákvæðum núgildandi stjórnarskrár verði breytt að meira eða minna leyti og 35 nýjum greinum verði bætt við. Meðal breytingartillagnanna er tillaga að orðalagi nýs ákvæðis, sem varðar kirkjuskipan í landinu. Orðalagið er augljóslega afrakstur einhvers konar málamiðlunar innan stjórnlagaráðs og gefur af þeim sökum tilefni til mismunandi túlkunar, en þó virðist rökrétt að draga þá ályktun að stjórnlagaráð sé ekki að leggja til aðskilnað ríkis og kirkju eða afnám þjóðkirkjunnar í núverandi mynd, heldur það að þjóðkirkjufyrirkomulagið njóti framvegis ekki stjórnarskrárverndar heldur aðeins þeirrar verndar sem felst í almennum lögum. Sumum kann að þykja þetta lítil breyting, en sjálfur hallast ég að því að í því felist eðlisbreyting á stöðu þjóðkirkjunnar. Hvað sem líður mismunandi viðhorfum í þeim efnum er ljóst, að niðurstöður sértæku spurningarinnar um þjóðkirkjuna og almennu spurningarinnar um tillögur stjórnlagaráðs geta orðið misvísandi um þetta atriði, en um það eru reyndar fleiri dæmi á þessum atkvæðaseðli.

Það er svo annað mál að áhöld eru um hvort tillaga stjórnlagaráðs um kirkjuskipan stenst út frá ákvæðum núgildandi stjórnarskrár um það hvernig breyta megi kirkjuskipan í landinu. Samkvæmt stjórnarskránni er hin lútersk-evangelíska kirkja þjóðkirkja á Íslandi og því má aðeins breyta með þeim sérstaka hætti sem stjórnarskráin sjálf kveður á um. Það að þynna út í áföngum hina stjórnskipulegu stöðu og vernd kirkjunnar, með þeim hætti sem tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir, virðist ekki standast slíka skoðun. Um það efni fjallaði Pétur Hafstein, fyrrverandi forseti kirkjuþings og hæstaréttardómari, í Morgunblaðsgrein í febrúar sl. með skýrum og afdráttarlausum hætti og er mér ekki kunnugt um að sjónarmiðum hans hafi nokkurn tímann verið svarað.