Gjaldmiðill, samningsafstaða og sjálfstæði Seðlabankans

Morgunblaðið, 4. september 2012

Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað nokkuð um samningsafstöðu ríkisstjórnarinnar í peninga- og gjaldmiðilsmálum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hefur umræðan að mestu snúist um þá spurningu, hvort eða með hvaða hætti ráðherrar Vinstri grænna hafi á vettvangi ríkisstjórnar gert fyrirvara við þau atriði samningsafstöðunnar, sem lúta að aðild Íslands að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) og upptöku evru sem gjaldmiðils Íslendinga.

Eins og gefur að skilja get ég ekkert um það fullyrt hvað farið hefur á milli manna við ríkisstjórnarborðið í þessum efnum. Úr vöndu er að ráða fyrir utanaðkomandi þegar jafn mikið ber á milli í frásögnum þeirra sem viðstaddir voru þann ríkisstjórnarfund í júlí, sem helst hefur verið vitnað til í þessu sambandi. Hlutaðeigandi hljóta að upplýsa almenning um það hið fyrsta. Mér finnst hins vegar ekki ástæða til að draga í efa, að rétt hafi verið frá því greint í fjölmiðlum að frágengin og staðfest, en raunar óbirt samningsafstaða ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum miðist við að Ísland gangi í EMU og evra verði tekin upp sem gjaldmiðill svo fljótt sem kostur er. Það er býsna skýr afstaða í einu stærsta álitamálinu, sem tengist ESB-umsókninni, og um leið skýr afstaða varðandi framtíðarfyrirkomulag peninga- og gjaldmiðilsmála í landinu. Þessi afstaða er hins vegar sem kunnugt er afar umdeild, svo vægt sé til orða tekið.

Samningsafstaða í einstökum köflum aðildarviðræðnanna er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Að henni hefur hins vegar verið unnið af sérstaklega tilnefndum samningahópi á viðkomandi sviði. Á sviði efnahags- og peningamála er hópurinn skipaður fjölmörgum einstaklingum úr ýmsum áttum, en formaður er Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.

Umfjöllun og stefnumörkun um gjaldmiðilsmálin hefur hins vegar ekki bara átt sér stað á vettvangi samningahópsins. Fyrrverandi efnahagsráðherra setti til að mynda á stofn nefnd eða samráðshóp um það efni á síðasta ári, en ekki veit ég til þess að nokkur niðurstaða hafi enn komið út úr því starfi. Nú er spurning hvað verður um alla þá vinnu og samráð þegar ríkisstjórnin hefur þegar tekið af skarið með jafn afdráttarlausum hætti og gert hefur verið í samningsafstöðunni á þessu sviði. Er samráðið á þeim vettvangi aðeins hugsað til málamynda? Þeirri spurningu hlýtur eftirmaður efnahagsráðherrans, núverandi atvinnumálaráðherra, eða annað hvort núverandi eða tilvonandi fjármála- og efnahagsráðherra, að geta svarað.

Að þessum málum hefur líka verið unnið innan Seðlabankans, en rúm þrjú ár eru síðan þáverandi seðlabankastjóri, Svein Harald Oygaard, lýsti því yfir á ársfundi bankans að hafin væri vinna við gerð faglegrar rannsóknarskýrslu um valkosti Íslands í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Af fréttum að dæma er skýrslan nú væntanleg, en útgáfu hennar hefur verið frestað allnokkrum sinnum. Í upphafi stóðu vonir margra til að þannig fengist hlutlaus og óháð úttekt á þessum valkostum en upp á síðkastið hefur efasemdarmönnum um það fjölgað. Nú verður skýrslan auðvitað að tala fyrir sig þegar hún kemur út, en í ljósi þess hver gegndi formennsku í samningahópi um efnahags- og peningamál vegna ESB umsóknarinnar má kannski ímynda sér hver niðurstaðan verður. Er ekki fyrirfram ólíklegt að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi aðra sýn á þessi mál en Már Guðmundsson formaður samningahópsins? Er ekki hætt við að það liti afstöðu bankans að bankastjórinn hefur þegar, á öðrum vettvangi, tekið jafn skýra afstöðu og hér hefur verið rakið? Og má ekki að lokum spyrja, hvað er orðið um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstjórninni þegar bankastjórinn stýrir stefnumótunarvinnu fyrir stjórnina í einu viðkvæmasta og umdeildasta álitamáli íslenskra stjórnmála?