Fór innanríkisráðherra út fyrir valdheimildir sínar?

Morgunblaðið, 25. ágúst 2012

Innanríkisráðuneytið birti fyrir nokkrum dögum auglýsingu, sem hefst á eftirfarandi orðum:

„Með vísan til 5. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, sbr. ályktun Alþingis 24. maí 2012, skal fara fram hinn 20. október 2012 ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.“

Í tilvitnuðum lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna kemur skýrt fram að það er hlutverk Alþingis að ákveða kjördag þjóðaratkvæðagreiðslu af þessu tagi. Kjördagur hlýtur samkvæmt skilgreiningu að vera einhver tiltekinn dagur, en ekki bara einhver ótilgreindur dagur á afmörkuðu tímabili.

Í ályktun Alþingis frá 24. maí sl., sem innanríkisráðuneytið vitnar til, segir um tímasetningu atkvæðagreiðslunnar:

„Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en 20. október 2012.“

Ályktunin sem meiri hluti Alþingis samþykkti gerði með öðrum orðum ráð fyrir nokkuð rúmu svigrúmi varðandi tímasetningu atkvæðagreiðslunnar. Orðalagið fól í raun í sér að atkvæðagreiðslan ætti að fara fram einhvern tímann á tímabilinu 24. ágúst til 20. október þegar horft er til þess að fyrsta mögulega dagsetningin var 3 mánuðum eftir afgreiðslu ályktunarinnar á þingi. Ályktunin fól hins vegar alls ekki í sér ákvörðun um tiltekinn kjördag. Hefði sú afstaða legið fyrir, að atkvæðagreiðslan ætti að fara fram 20. október en ekki einhvern annan dag, þá hefði það að sjálfsögðu komið skýrt fram í orðalaginu. Ef meiri hlutinn hefði verið búinn að gera upp hug sinn í þeim efnum hefði þeim verið í lófa lagið að orða tillögu sína með þeim hætti. Eða það skyldi maður ætla.

Um miðjan júlí var athygli vakin á þessu á síðum Morgunblaðsins og skrifaði ég meðal annars um það grein sem birtist þann 21. júlí. Þar spurði ég meðal annars hvenær svigrúmið, sem ályktun Alþingis frá 24. maí fól í sér, hefði breyst í tiltekinn kjördag, hver hefði tekið þá ákvörðun og með hvaða hætti. Ég hef ekki fengið svör við þeim spurningum.

Í ljósi alls þessa má spyrja hvort innanríkisráðherra hafi nú tekið hina eiginlegu ákvörðun um að kjördagur skuli vera 20. október og auglýsingin sé til merkis þar um. Ef málum er þannig háttað hefur ráðherrann og ráðuneytið farið út fyrir valdheimildir sínar, enda er skýrt í lögunum að það er Alþingis að taka ákvörðun um kjördaginn þótt ráðuneytinu sé vissulega falið að birta auglýsinguna.

Nú kann ýmsum að þykja sem hér sé á ferðinni full mikil smásmygli um formsatriði, sérstaklega í ljósi þess að þjóðaratkvæðagreiðslan eða spurningakönnunin sem hér um ræðir sé ekki bindandi, spurningarnar séu hvort sem er ójósar um margt og gefi tilefni til margs konar túlkunar og Alþingi eigi hvort sem er eftir alla hina formlegu og efnislegu umfjöllun um fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar. Til að svara slíkum sjónarmiðum er nauðsynlegt að benda á að hér er þrátt fyrir allt stefnt að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem í fyrsta sinn er beitt viðkomandi ákvæðum nýlegra laga um það efni. Það, hvernig staðið er að undirbúningi í því sambandi, hlýtur að hafa almennt gildi - jafnvel fordæmisgildi varðandi síðari ákvarðanir um slíkar atkvæðagreiðslur. Þá er rétt að vekja athygli á því að af þessu tilefni á að ráðast í umtalsverð útgjöld úr opinberum sjóðum, enda er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslan ein og sér muni kosta um 250 milljónir króna. Loks má minna á að af opinberri umræðu að dæma finnst ýmsum þessi atkvæðagreiðsla þýðingarmikil, almenningur er hvattur til þátttöku og ætlast til viðamikillar opinberrar kynningar, og væri þegar af þeirri ástæðu tilefni til að gæta verulega að formhlið málsins hvað allan undirbúning varðar.