Skringilegur ferill stjórnarskrármáls

Morgunblaðið, 15. ágúst 2012

Ríkisútvarpið flutti fyrr í vikunni fréttir af gangi þeirrar undirbúningsvinnu, sem ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi hefur ákveðið í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Meðal þess sem fram kom var að lögfræðingahópur, sem stjórnarmeirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk í vor til að að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs, myndi trúlega ekki skila niðurstöðum sínum fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, sem meirihluti Alþingis ákvað 24. maí sl. að fram skuli fara einhvern tímann í sumar eða haust, en þó eigi síðar en 20. október.

Það hefur að vonum vakið furðu margra, að þessi tvö verkefni, þ.e. vinna lögfræðingahópsins annars vegar og undirbúningur þjóðaratkvæðagreiðslu hins vegar, væru í gangi á sama tíma, án þess að um nokkurt innbyrðis samhengi væri að ræða. Vinna lögfræðingahópsins eigi að hafa sinn gang án tillits til þess að ætlunin sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, og þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að fara fram hvort sem lögfræðingarnir hafi skilað niðurstöðum sínum eða ekki. Þetta er auðvitað sérkennilegt í ljósi þess að viðfangsefnið er það sama; að fjalla um tillögurnar sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis þann 31. júlí 2011.

Lögfræðingunum er, samkvæmt bókun meirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlað eftirfarandi hlutverk: "...að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Tillögurnar verða yfirfarnar og skoðaðar m.a. með tilliti til eftirfarandi atriða:

a) mannréttindasáttmála sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir,

b) innra samræmis og mögulegra mótsagna,

c) réttarverndar miðað við gildandi stjórnarskrá og greinargerð með tillögum

d) málsóknamöguleika gegn ríkinu

Sérfræðingarnir hafa einnig verið beðnir um að yfirfara greinargerð stjórnlagaráðs með tillögum þess og skrifa drög að greinargerð með frumvarpinu."

Það er því alveg ljóst að lögfræðingunum er ætlað viðamikið verkefni og niðurstöður þeirra hljóta að skipta miklu máli þegar tekin er afstaða til tillagna stjórnlagaráðs. Hér er alls ekki bara um einhvern lögfræðilegan prófarkalestur að ræða, eins og stundum hefur mátt ráða af talsmönnum stjórnarmeirihlutans á þingi.

Og um hvað á svo þjóðaratkvæðagreiðslan svokallaða í haust svo að fjalla? Jú, meginspurningin, sem ætlunin er að leggja fyrir kjósendur, er sú hvort þeir vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýju frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, sem lagt verði fram á þingi í haust. Eins og tímaramminn lítur nú út er ljóst að niðurstaða hinnar lögfræðilegu vinnu á ekki að skipta neinu máli í því samhengi. Kjósendur eiga að svara framangreindri spurningu jákvætt eða neikvætt, án þess að hafa nokkra hugmynd um niðurstöður eða afrakstur margra mánaða vinnu nokkurra vel metinna lögfræðinga. Þetta er auðvitað furðulegt vinnulag, hvernig sem á það er litið.

Það ætti að vera óþarft að taka fram að þessum áformum var mótmælt harðlega af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á sínum tíma og komu þau sjónarmið líka fram í umræðum á þingi. Jafnframt kom fram að þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu í sjálfu sér engar athugasemdir við að lögfræðingahópnum væri falið það verkefni, sem hér um ræðir, en samhengi eða samhengisleysi í vinnu þeirra og undirbúningi fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu vekti furðu. Þjóðaratkvæðagreiðslan væri fullkomlega ótímabær í haust í ljósi þess að vinnan við tillögur að stjórnarskrárbreytingum væri í miðju kafi.

Þessi tiltekna uppsetning hlutanna af hálfu þingmeirihlutans og forystu hans setur þjóðaratkvæðagreiðslu í haust í svolítið sérstakt ljós. Þar kemur auðvitað fleira til, sem vonandi gefst kostur á að rekja fljótlega. Og læt ég þá alveg liggja milli hluta þá spurningu, hvort búið sé að taka ákvörðun með formlega réttum hætti um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október en ekki einhvern allt annan dag.