Aðildarferli í ógöngum

Morgunblaðið, 11. ágúst 2012

Viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru í nokkuð sérkennilegri stöðu. Nú eru þrjú ár síðan ríkisstjórnin sendi forystu ESB umsókn á grundvelli ályktunar meiri hluta Alþingis en línur eru ekkert farnar að skýrast varðandi þá þætti umsóknarferlisins og viðræðnanna, sem frá upphafi hefur verið vitað að myndu verða viðkvæmastir og valda mestum ágreiningi. Þar er auðvitað ekki um að kenna því ágæta fólki, sem vinnur að málinu á vegum stjórnarráðsins frá degi til dags. Ábyrgðin á þessari stöðu hvílir á herðum hinnar pólitísku forystu ríkisstjórnarinnar.

 Þegar farið er yfir þá kafla aðildarviðræðnanna, sem þegar hafa verið kláraðir, sést að þar er fyrst og fremst um að ræða málaflokka, þar sem Ísland hefur þegar lagað löggjöf sína að regluverki ESB á grundvelli EES-samningsins. Sama á við um aðra þá kafla, sem opnaðir hafa verið í viðræðunum og enn eru til umfjöllunar. Í erfiðustu og vandasömustu köflunum er staðan sú, að samningsafstaða liggur ekki fyrir af Íslands hálfu og því ekki forsendur til að opna kaflana og hefja viðræður. Enn er fullkomlega óljóst hvenær að því kemur og hafa yfirlýsingar utanríkisráðherra og annarra talsmanna ríkisstjórnarinnar ekki verið mjög skýrar í þeim efnum.

það er svo sem eftir öðru, enda er almennt afar erfitt að átta sig á því hver markmið ríkisstjórnarinnar eru í þessu sambandi. Á þeim bæ hafa menn greinilega mismunandi skoðanir á því hvort æskilegt sé að hraða viðræðunum eða ekki. Þannig hafa ummæli ýmissa forystumanna úr VG um að mikilvægt sé að fá skýrar línur sem fyrst í erfiðu málunum greinilega engin áhrif haft á gang viðræðnanna. Hvað sem þeirra afstöðu líður hefur tíminn og orkan greinilega farið í auðveldu kaflana en hinum vandasamari verið skotið á frest.

Staða mála kann að einhverju leyti að skýrast í þessum efnum á allra næstu mánuðum. Ekki er ósennilegt að gerð verði tilraun til þess af ríkisstjórninni og þeim sem vinna í hennar umboði til að leggja fram samningsafstöðu í erfiðu málunum nú í haust, en hætt er við að það verði ekki með öllu átakalaust. Mótun samningsafstöðu í málaflokkum á borð við landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál verður ekki óumdeilt ferli sem hægt verður að afgreiða í gegnum samningahópa, samráðshópa, ríkisstjórn eða utanríkismálanefnd þingsins umræðulítið og án ágreinings. Þar verður gerð krafa um að af Íslands hálfu verði verði lögð fram skýr markmið í samræmi við þjóðarhag, en ekki innihaldslítið orðagjálfur. Sama á auðvitað við um fleiri kafla, svo sem peningamál, skattamál og byggðamál, þar sem vinnan mun vera lengra komin en í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálunum.

Það má því búast við því að umræðurnar um aðild Íslands að ESB færist frekar í vöxt á næstu mánuðum en hitt. Hvað svo sem mönnum kann að finnast um aðildarumsóknina sem slíka ættu flestir að geta tekið undir að með mótun samningsafstöðu í flóknustu og erfiðustu köflunum kemst ferlið á nýtt stig. Það verða með vissum hætti tímamót.

Á sama tíma er þess að vænta, að þrýstingur aukist til muna á að látið verði á það reyna innan þings hvort raunverulegur meirihlutastuðningur sé við framhald viðræðnanna. Óþarft er að fara mörgum orðum um það, að aðstæður bæði á Íslandi og í Evrópu eru gerólíkar því sem var sumarið 2009 þegar aðildarumsókn var samþykkt á þingi. Andstaðan við umsókn bæði innan þings og utan hefur vaxið verulega og margvísleg rök fyrir aðildarumsókn, sem ýmum þóttu brúkleg fyrir þremur árum, hljóma heldur hjárænulega í dag. Þegar talað er um að látið verði reyna á stuðning við framhald viðræðnanna innan þings dugar ekki að vísa til þess að á það hafi reynt í vor, þegar atkvæði voru greidd um breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur við tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Við þá atkvæðagreiðslu skýrðu ýmsir andstæðingar tillögunnar afstöðu sína með þeim hætti að þeir teldu hana óþinglega þar sem hún snerist um annað málefni heldur en aðaltillagan, sem til umfjöllunar var. Þingið á því ótvírætt eftir að taka afstöðu til framhalds viðræðna við ESB í ljósi breyttra ytri aðstæðna og raunar breyttrar afstöðu margra innan þingsins.

Á þessum haustmánuðum mun svo auðvitað líka draga til tíðinda af þeirri augljósu ástæðu, að kosningar verða í vor og kjósendur munu að sjálfsögðu kalla eftir skýrri afstöðu flokka og frambjóðenda til framhalds málsins.