Fækkun lögreglumanna er áhyggjuefni

Morgunblaðið, 4. ágúst 2012

Enn á ný hefur verið vakin athygli á þeim fjárskorti sem lögreglan í landinu hefur búið við síðustu ár. Lögregluembættin hafa eins og margar aðrar stofnanir hins opinbera þurft að sæta hagræðingar- og niðurskurðarkröfum og réttilega hefur verið vakin athygli á því að afleiðingin er meðal annars umtalsverð fækkun starfandi lögreglumanna. Nýjustu upplýsingar um fækkun lögreglumanna hér á höfuðborgarsvæðinu vekja auðvitað mikla athygli, en eru því miður ekkert einsdæmi.

Hér er um að ræða þróun, sem veruleg ástæða er til að hafa áhyggjur af, ekki síst í ljósi þess að viðfangsefni lögreglunnar hafa á margan hátt orðið erfiðari og viðameiri á allra síðustu árum og starfsumhverfi lögreglumanna hættulegra. Ytri aðstæður hafa í raun kallað á eflingu lögreglunnar í landinu, bæði hvað varðar mannafla og tækjabúnað, á sama tíma og embættin hafa orðið að herða sultarólina frá ári til árs.

Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til löggæslustofnana eins og annarra opinberra aðila að þær leiti stöðugt leiða til að sinna starfi sínu með sem hagkvæmustum hætti, forgangsraði verkefnum og skipulag sé til þess fallið að fjárveitingar nýtist sem best. Á samdráttartímum í efnahagslifinu þarf að sjálfsögðu að sýna mikla aðhaldssemi og gætni í ráðstöfun opinberra fjármuna. Það hafa lögregluembættin gert á undanförnum árum en spurning er sú hvort þau hafa neyðst til að ganga svo langt, að það komi niður á þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Mat mitt er að fjárveitingar til þessa málaflokks séu fyrir löngu komin niðurfyrir sársaukamörk, ef svo má taka til orða, og hætta sé á að þær hafi á vissum sviðum farið niður fyrir þolmörk eða öryggismörk. Að minnsta kosti er alveg ljóst að við núverandi ástand má ekki búa og þegar kemur að umfjöllun Alþingis um fjárveitingar næsta árs er óhjákvæmilegt að úr verði bætt.

Eins og fram hefur komið í opinberri umræðu er það ekkert nýmæli að stjórnmálamenn tali um mikilvægi þess að efla löggæsluna í landinu, búa betur að þeim stofnunum sem starfa á þessu sviði og bæta aðstæður þeirra sem þar starfa. Um það vitna meðal annars umræður á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Staðreyndin er hins vegar sú að miklu minna hefur orðið úr efndum heldur en hástemmdar yfirlýsingar hafa gefið fyrirheit um. Síðustu ár hefur Alþingi raunar bætt lítillega við fjárveitingar til lögregluembætta við endanlega afgreiðslu fjárlaga miðað við upphaflegar tillögur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, en þar hefur því miður ekki verið um að ræða nema dropa í hafið miðað við fjárþörfina.

Um þessar mundir berast af því fréttir að fjárlagafrumvarp næsta árs hafi verið kynnt í ríkisstjórn og þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Öðrum þingmönnum er ekki kunnugt um efni þess, hvorki í stórum dráttum né smáum. Mér er því ekki ljóst hvort frumvarpið muni fela í sér úrbætur á þessu sviði eða áframhaldandi samdráttarstefnu. Ég get á þessu stigi aðeins vakið athygli á því að enn er færi, bæði á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis, til að bæta fjárhagslega stöðu lögregluembættanna í landinu.

Viðfangsefnin í ríkisfjármálum eru bæði viðkvæm og vandmeðfarin. Lengi má deila um hvort nægilegt fjármagn er fyrir hendi til að styðja og efla einstaka málaflokka. Ákvarðanir í þeim efnum hljóta á hverjum tíma að byggja á einhvers konar forgangsröðun, sem alltaf ræðst að miklu leyti af pólitísku mati. Ég er þeirrar skoðunar að löggæslumálin séu meðal þeirra málaflokka, sem okkur ber hiklaust að setja framarlega í forgangsröðina. Það er grundvallarskylda ríkisvaldsins að halda uppi lögum og reglu í landinu og gæta öryggis borgaranna. Sú starfsemi sem lögreglan hefur með höndum er tvímælalaust grundvallarþjónusta og ber að fjalla um sem slika þegar fjárveitingum úr ríkissjóði er skipt. Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti á þingi, sem ár eftir ár ver milljörðum í margvísleg gæluverkefni, getur ekki endalaust borið fyrir sig fjárskort í þessu sambandi.