Loftslagmál og stjórnarskráin

Morgunblaðið, 9. júlí 2012

Þann 19. júní sl. samþykkti meiri hluti Alþingis frumvarp til laga frá umhverfisráðherra um loftslagsmál. Einn megintilangur þessarar lagasetningar var að innleiða í íslenskan rétt gildandi reglur ESB um viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Fól frumvarpið þannig m.a. í sér innleiðingu ákvæða þriggja eldri tilskipana ESB um það efni, sem þegar eru orðnar hluti af EES-réttinum. Frumvarp þetta kom fram afar seint og fékk ekki mikla umfjöllun á þingi, en af hálfu stjórnvalda var mjög þrýst á um afgreiðslu þess á þeirri forsendu, að það væri nauðsynlegt til að íslensk fyrirtæki gætu orðið aðilar að viðskiptakerfinu frá og með næstu áramótum. Af hálfu margra samtaka í atvinnulífinu og fleiri umsagnaraðila var að sönnu lögð áhersla á mikilvægi þess að Íslendingar gætu tekið þátt í þessu viðskiptakerfi, en fjölmargar efnislegar athugasemdir voru gerðar við útfærsluna, eins og hún birtist í frumvarpinu. Þar sem ekki var brugðist við þessum athugasemdum nema að litlu leyti gátum við þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki stutt frumvarpið og kom sú afstaða fram bæði innan þingnefndar og í þingsal.


Á sama tíma og málið var til umfjöllunar í þinginu var á vettvangi ríkisstjórnar og í stjórnarráðinu fjallað um nýlega reglugerð ESB sem varðar þetta sama viðskiptakerfi með losunarheimildir. Efnisatriði þeirra reglugerðar eru ekki hluti frumvarpsins, sem áður er vikið að, en munu engu að síður hafa veruleg áhrif á viðskiptakerfið þegar og ef þau verða hluti EES-réttarins. Þrír ráðherrar fólu tveimur lagaprófessorum þann 22. maí að fjalla um stjórnskipuleg álitaefni varðandi reglugerðina, þ.e. hvort ákvæði hennar fælu í sér óheimilt framsal ríkisvalds og færu þannig gegn stjórnarskránni. Niðurstaða þeirra var sú, að í óbreyttri mynd væri um slíkt óheimilt valdaframsal að ræða. Þetta kom fram í álitsgerð sem send var ráðherrunum þremur þann 12. júní, viku áður en Alþingi afgreiddi lagafrumvarpið. Þingmönnum í viðkomandi nefndum þingsins var ekki kunnugt um þessa álitsgerð fyrir en 27. júní, rúmum tveimur vikum eftir að ráðherrarnir fengu hana í hendur og rúmri viku eftir lokaafgreiðslu málsins á þingi.

Þessi vinnubrögð höfum við nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýnt harðlega. Ekki vegna þess að í lagafrumvarpinu sem slíku hafi falist óheimilt framsal ríkisvalds heldur vegna þess að á meðan þingið var að fjalla um málið var mikilvægum atriðum varðandi nátengt mál haldið leyndum fyrir þingmönnum. Niðurstaða lagaprófessoranna hefði að sjálfsögðu skipt máli fyrir þingmenn sem voru að fjalla um lagafrumvarpið. Þingmenn stóðu í þeirri meiningu að með samþykkt þess væru þeir að ljúka þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar væru til að íslensk fyrirtæki gætu tekið þátt í viðskiptakerfinu. Á sama tíma komust sérfræðingar á vegum ríkisstjórnarinnar að þeirri niðurstöðu að vegna nýrrar reglugerðar ESB geti Íslendingar að óbreyttu ekki tekið þátt í þessu kerfi nema framselja vald til alþjóðlegra stofnana í meira mæli en stjórnarskráin heimilar. Þessari niðurstöðu sérfræðinganna var haldið leyndri fyrir þingmönnum þangað til frumvarpið hafði verið afgreitt. Enginn getur haldið því fram að slík vinnubrögð séu til fyrirmyndar. Þetta háttalag leiðir ekki heldur í sér aukið traust milli ríkisstjórnar og þings, en á því er auðvitað tilfinnanlegur skortur um þessar mundir. Þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem höfðu mál þetta með höndum, skulda þinginu skýringar á atburðarásinni. Var um að ræða handvömm eða hreina leyndarhyggju af þeirra hálfu?