Erlend fjárfesting - endurtekið efni?

Morgunblaðið 2. ágúst 2012

Fyrir nákvæmlega tveimur árum var mikið uppistand í fjölmiðlum út af fjárfestingu fyrirtækisins Magma Energy í Hitaveitu Suðurnesja. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar gáfu yfirlýsingar út og suður og augljóst var að á þeim bæ var engin samstaða um hvernig bregðast skyldi við áætlunum hins erlenda fjárfestis. Þingmenn úr stjórnarliðinu gáfu digurbarkalegar yfirlýsingar um að lyktir málsins myndu ráða úrslitum um stuðning þeirra við stjórnina og svo má lengi telja. Viðbrögð stjórnarflokkanna voru þau að skipa starfshópa og nefndir til að fara yfir stöðu málsins og möguleg viðbrögð og stóð nefndastarfið yfir mánuðum saman. Sennilega eru ekki margir sem geta rifjað upp í dag hvernig þessum málum lyktaði.


Hvað svo sem mönnum finnst um kaup kanadísks fyrirtækis í gegnum sænskt dótturfélag á ráðandi hlut í íslensku orkufyrirtæki þá ættu flestir að geta verið sammála um að sú málsmeðferð og stjórnsýsla sem uppi var í Magma-málinu var ekki til fyrirmyndar. Hún var hvorki góð gagnvart hinum erlenda fjárfesti né öðrum hagsmunaaðilum, og enn síður var hún traustvekjandi fyrir íslenskan almenning.

Hér er þetta rifjað upp vegna þess að þessa dagana fer fram í fjölmiðlum mikið sjónarspil út af hugsanlegri leigu kínverska fjármálamannsins Huang Nubo og fyrirtækja hans á Grímsstöðum á Fjöllum og hugmynda um uppbyggingu þar í sambandi við ferðaþjónustu. Að sumu leyti eru þessi tvö mál mál svipuð, þrátt fyrir að þau séu auðvitað ólík í öðrum efnum. Líkindin koma kannski helst fram í viðbrögðum ríkisstjórnar og þingflokka stjórnarflokkanna við þessum fjárfestingaráformum. Málin hafa verið að velkjast í kerfinu mánuðum og misserum saman án niðurstöðu og einstakir ráðherrar og ráðuneyti virðast nálgast það út frá gerólíkum forsendum. Málin hafa einhvern vegin mallað áfram í kerfinum án skýrrar niðurstöðu og hluti stjórnsýslunnar virðist vera reiðubúinn að teygja sig langt til að sveigja fram hjá ákvörðunum sem aðrir innan kerfisins hafa tekið. Bráðabirgðalausn ríkisstjórnarinnar er sú, til að kæla mál sem farið er að valda vandræðum, er að skipa samráðshóp eða nefnd til að fara yfir stöðuna, og þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða að skipuð verði valnefnd til velja fulltrúa í samráðshópinn og hæfisnefnd til að meta hæfin og hæfni valnefndarinnar. Það var að minnsta kosti aðferðin sumarið og haustið 2010. Eins og svo margt sem þessi ríkisstjórn hefur tekið sér fyrir hendur átti ferlið að vera óskaplega vandað og faglegt en var í raun stjórnlaus vitleysa.

Ég er almennt hlynntur erlendri fjárfestingu hér á landi. Ég tel að íslensk löggjöf og stjórnsýsla eigi að vera með þeim hætti að fremur sé greitt fyrir fjárfestingum erlendra aðila hér á landi en að girt sé fyrir þær. Ég verð þó að játa að ekki eru allar erlendar fjárfestingar eins og máli getur skipt hvað keypt er og hver það er sem kaupir. Þannig er ég tortryggnari gagnvart fjárfestingum frá ríkjum sem búa við alræðisstjórn en ríkjum sem búa við vestrænt lýðræðisfyrirkomulag. Um leið finnst mér ekkert athugavert við að spurt sé að því hvort fjárfestingarnar tengist með einhverjum hætti alþjóðapólitískum hræringum. Þá hef ég almennt minni áhyggjur af fjárfestingum aðila, sem koma frá löndum þar sem viðskiptafyrirkomulag, löggjöf og réttarfar er líkt því sem við þekkjum, frekar en þegar um verulega frábrugðið umhverfi er að ræða. Við slíkar aðstæður er að mínu mati rétt að stíga varlega til jarðar.

Vonandi fæst fljótlega skýr og endanleg niðurstaða í Grímsstaðamálinu, sem byggir á málefnalegum forsendum og vandaðri skoðun. En hvernig sem því einstaka máli vindur fram ætti að vera augljóst að skerpa þarf stefnumörkun og sýn bæði löggjafans og stjórnsýslunnar í þessum efnum. Stefna Íslendinga varðandi erlendar fjárfestingar á ekki og má ekki til frambúðar einkennast af einstökum, tilviljanakenndum uppákomum á borð við þær sem við höfum orðið vitni að síðustu ár. Erlendir fjárfestar, innlendir hagsmunaaðilar og íslenskur almenningur eiga að geta áttað sig á því hvaða stefnu stjórnvöld fylgja á hverjum tíma í þessum efnum. Það gengur ekki að einni stefnu sé fylgt við Sölvhólsgötu og einhverri allt annarri við Lindargötu eða í Skuggasundi.