- Óvissuferð að tilefnislausu

Fréttablaðið – 12. október 2012

Ég styð endurskoðun núgildandi stjórnarskrár en er andvígur því að henni verði umbylt.

Ég hef ítrekað lýst þeirri skoðun minni, að tilefni sé til að endurskoða nokkra, afmarkaða þætti stjórnarskrárinnar. Þannig mætti t.d. endurbæta kaflann um forsetaembættið, skerpa á valdmörkum helstu handhafa ríkisvaldsins, auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og koma inn ákvæði um takmarkað framsal ríkisvalds á afmörkuðum sviðum. Um allt þetta mætti ná ágætri sátt. Eins tel ég forsendur til að ná víðtæku samkomulagi um einhvers konar ákvæði um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Það krefst vinnu og ákveðinna málamiðlana, en er örugglega hægt. Það, að endurskrifa hvert einasta ákvæði núgildandi stjórnarskrár og bæta 35 nýjum greinum við, er hins vegar ekki bara óþarfi, heldur getur líka reynst varasamt. 

Fólk verður að hafa í huga að stjórnarskrá er ekki bara eins og einhver fallega orðuð stefnuyfirlýsing stjórnmálaflokks eða félagasamtaka. Stjórnarskrá hefur lagagildi. Hún er grundvöllur allrar annarrar lagasetningar í landinu og felur í sér réttindi og skyldur, sem iðulega reynir á fyrir dómi. Þetta þurfa menn að hafa í huga við hverja einustu stjórnarskrárbreytingu. Markmið breytinganna þurfa að vera skýr, textinn þannig að hann gefi ekki tilefni til túlkana út og suður og loks verða þeir sem að stjórnarskrárbreytingum standa að gera sér glögga grein hver áhrif breytinganna geta orðið í raun og veru. Það vantar verulega mikið upp á að þessum skilyrðum sé fullnægt þegar litið er til tillagna stjórnlagaráðs. Hinar umfangsmiklu breytingar, sem í þeim felast, skapa verulega óvissu á mörgum sviðum, bæði varðandi stjórnskipun landsins og réttarstöðu einstaklinga. Þess vegna væri mikið óráð að leggja þær til grundvallar frumvarpi um stjórnarskrárbreytingar, eins og spurt er um á kjörseðlinum. Það væri óvissuferð að tilefnislausu.