Um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu

Morgunblaðið, 21. júlí 2012

Þann 24. maí sl. samþykkti meirihluti Alþingis þingsályktun um „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um frumvarp til stjórnarskipunarlaga“, eins og það var orðað. Samkvæmt endanlegu orðalagi ályktunarinnar átti atkvæðagreiðslan að fara fram „eigi síðar en 20. október 2012“.

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna kveða á um að atkvæðagreiðslur af þessu tagi megi ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir ákvörðun Alþingis þar um. Fólst því í þessu orðalagi að atkvæðagreiðslan gæti orðið einhvern tímann á tímabilinu 24. ágúst til 20. október. Hinn eiginlegi kjördagur var með öðrum orðum ekki ákveðinn með samþykkt  tillögunnar, heldur fólst í orðalagi hennar ákveðið svigrúm til að efna til atkvæðagreiðslunnar einhvern tímann á tæplega tveggja mánaða tímabili. Augljóst virðist að meirihluti þingsins hafi meðvitað ákveðið að skilja eftir eitthvað svigrúm að þessu leyti, því annars hefði kjördagurinn verið skýrt tiltekinn, til dæmis með því að orða textann einfaldlega á þann hátt,  svo dæmi séu nefnd, að atkvæðagreiðsla skyldi fara fram 25. ágúst, 1. september, 20. október eða einhvern annan hentugan dag að mati meirihlutans. Það var ekki gert og fól ákvörðun Alþingis 24. maí því ekki í sér val á einhverjum tilteknum kjördegi.

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna kveða skýrt á um það að það sé hlutverk Alþingis að ákveða kjördag fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Það vald er ekki samvkæmt lögunum falið neinum öðrum innan stjórnkerfisins, hvorki innanríkisráðuneyti, landskjörstjórn né nokkrum öðrum aðila, sem að öðru leyti kemur að framkvæmd kosninga af þessu tagi. Þegar lög kveða á um að Alþingi þurfi að ákveða eitthvað, þá er svo að sjálfsögðu átt við að Alþingi allt eða meirihluti þess tagi slíka ákvörðun í atkvæðagreiðslu, en ekki t.d. forseti þingsins, forsætisnefnd eða skrifstofa þingsins. Ef ætlunin væri sú að fela einhverjum öðrum en þinginu í heild ákvörðunarvald í þessum efnum þyrfti það að koma fram með skýrum hætti í lögum.

Því er nú þráfaldlega haldið fram af talsmönnum ríkisstjórnarmeirihlutans að búið sé að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að fara fram laugardaginn 20. október nk. en ekki einhvern annan dag. Þá vakna nokkrar mikilvægar spurningar: Hvenær breyttist svigrúmið sem fólst í orðalagi þingsályktunartillögunari í þessa ákveðnu dagsetningu? Hvenær var sú ákvörðun tekin? Hver tók ákvörðunina? Hvernig var ákvörðunin tekin? Það er væntanlega ekki til of mikils mælst að ábyrgðarmenn þessa máls, talsmenn meirihlutans á þingi, svari þessum spurningum skýrt og undanbragðalaust hið fyrsta.