Hvernig á að breyta stjórnarskránni?

Morgunblaðið, 28. febrúar 2012

Allt frá því Jóhanna Sigurðardóttir myndaði fyrsta ráðuneyti sitt í byrjun febrúar 2009 hafa staðið yfir stöðugar æfingar og tilraunir í sambandi við breytingar á stjórnarskránni. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ásamt nokkrum fylgifiskum sínum úr stjórnarandstöðunni lagt gert það að markmiði sínu að breyta sem mestu í þessari grundvallarlöggjöf lýðveldisins og hafa í þeirri viðleitni sinni farið afar óhefðbundnar leiðir, svo vægt sé til orða tekið. Alþingi hefur með reglulegu millibili verið sett í uppnám vegna þessara mála og hefur drjúgur tími farið í umræður um þau á þessum þremur árum. Ekki hefur þó mikið farið fyrir rökræðu um efni eða innihald stjórnarskrárinnar á þeim vettvangi heldur hefur tíminn og orkan farið í umræður um aðferðir við stjórnarskrárbreytingar, sem í hugum margra í stjórnarliðinu virðist skipta meiru en hin efnislega niðurstaða. Meirihlutinn á þingi hefur hvað eftir annað lent í stórfelldum ógöngum með eigin tillögur og málatilbúnað í þessum efnum og nýjustu atburðir benda eindregið til þess að framhald verði á þeirri hrakfallasögu.

Þann 22. febrúar sl. samþykkti Alþingi með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna, Hreyfingarinnar, Sivjar Friðleifsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar tillögu um næstu skref í málinu. Þau felast annars vegar í því að þeir einstaklingar, sem sátu í stjórnlagaráði á síðasta ári verði kallaðir aftur til sérstaks fjögurra daga fundar snemma í mars og hins vegar að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur ráðsins í júnílok. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýndu þessa afgreiðslu harðlega, ekki síst vegna þess að margir lykilþættir lágu ekki ljósir fyrir þegar lokaafgreiðsla fór fram í þinginu. Þannig var talsvert á reiki hvert yrði verkefni stjórnlagaráðsfundarins í mars og enn ætti eftir að útfæra hugmyndirnar um þjóðaratkvæðagreiðsluna í sumar. Svo mikið lá á að koma málinu í gegnum þingið að meirihlutinn gaf sér ekki tíma til að móta skýrar tillögur í þessum efnum. Óvissuferðinni er þannig haldið áfram.

Á þeim dögum sem liðnir eru frá afgreiðslunni á Alþingi hefur verkefni fundar stjórnlagaráðsins í mars skýrst nokkuð. Þannig hefur meirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekið saman nokkra punkta með álitamálum, sem hann hyggst bera undir stjórnlagaráðsfólkið. Þessi álitamál varða meðal annars ákvæðin um forsetaembættið, kosningakerfið, þröskulda við þjóðaratkvæðagreiðslur og spurningar um það hvort ákvæði úr þingsköpum eigi erindi í stjórnarskrá, hvort ríkisstjórn eigi að vera fjölskipað stjórnvald og nokkur fleiri atriði. Óvissuþættirnir varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna í sumar munu hins vegar ekki skýrast fyrr en sérstök þingsályktunartillaga verður lögð fram að fundi stjórnlagaráðsins loknum. Þangað til er ekki annað vitað um þá útfærslu en það sem segir í tillögunni sem var samþykkt á dögunum. Þar kemur fram að annars vegar muni þjóðaratkvæðagreiðslan snúast um tillögur stjórnlagaráðs í heild, óbreyttar eða lítillega breyttar, og hins vegar um fjögur til fimm sérstök álitamál eða spurningar, sem enn á eftir að útfæra. Hins vegar er ljóst að tíminn til að vinna þá vinnu verður ekki mikill því eigi þjóðaratkvæðagreiðslan að fara fram samhliða forsetakosningum í júnílok verður að Alþingi að samþykkja þingsályktun um það efni fyrir lok mars, enda gera lög um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur ráð fyrir því að þær verði að boða með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

Það er óhætt að segja að þessi niðurstaða meirihlutans á Alþingi hafi vakið blendin viðbrögð. Að minnsta kosti tveir stjórnlagaráðsmenn hafa nú þegar lýst því yfir að þeir muni ekki taka þátt í fundinum mars og gagnrýnt harðlega hvernig haldið hefur verið á málum af hálfu þingsins. Fleiri úr þeim hópi hafa raunar gagnrýnt hvernig að þessu var staðið jafnvel þótt þeir hyggist mæta. Fjölmiðlar hafa eðlilega leitað álits háskólakennara og fræðimanna í stjórnskipunarrétti og hafa þeir  undantekningarlaust gagnrýnt þessa niðurstöðu harðlega og lýst áhyggjum af framhaldi málsins. Jákvæðu viðbrögðin hafa fyrst og fremst komið frá þeim hluta stjórnlagaráðsfulltrúanna, sem harðast hefur gengið fram í kröfugerð um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur ráðsins óbreyttar  sem allra fyrst. Leiðin, sem meirihluti Alþingis valdi, er að vísu ekki í fullu samræmi við þær kröfur en felur þó í sér að býsna langt er gengið til að koma til móts við þær.