Skamma stund verður hönd höggi fegin

Morgunblaðið 24. apríl 2012
Niðurstaða Landsdóms í máli meirihluta Alþingis gegn Geir Haarde krefst að sjálfsögðu mikillar yfirlegu á næstunni, bæði á vettvangi lögfræði og stjórnmála. Í flestum meginefnum hefur Landsdómur í raun fallist á vörn Geirs og ýmist beitt frávísun eða sýknu í 5 af 6 liðum upphaflegrar ákæru.

Í gær kom í ljós að bæði meirihluti og minnihluti voru sammála um að sýkna Geir af þeim þremur ákæruliðum, sem telja má efnislega, og hefðu hugsanlega getað staðið í einhverju raunverulegu samhengi við bankahrunið. Þar var um ræða eftirfarandi liði: 

a) Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

b) Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

c) Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Áður hafði Landsdómur vísað frá tveimur fyrstu liðunum úr ákærutillögunni, sem samþykkt var af meirihluta Alþingis í september 2010. Þeir ákæruliðir voru annars vegar að Geir hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði og hins vegar fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu ríkisins.

Öll þessi ákæruatriði hafa sem sagt verið afgreidd með frávísun eða sýknu. Er þar um að ræða langflest þau atriði, sem meirihlutinn á þingi lagði upp með í ákærutillögu sinni á sínum tíma. Eftir stendur það eitt, að meirihluti Landsdóms taldi rétt að sakfella Geir fyrir að brjóta í bága við 17. gr. stjórnarskrárinnar með því að láta fyrir farast að halda ráðherrafundi um yfirvofandi háska vegna stöðu fjármálakerfisins. Engin skynsamleg tilraun hefur verið gerð til að sýna fram á orsakatengsl milli þessa brots og þeirra afleiðinga sem komu fram í hruni íslensku bankanna, enda engin leið að sýna fram á að formleg fyrirtaka þessara mála á ráðherrafundum hefði raunverulega breytt nokkru um rás atburða. Það var líka niðurstaða 6 dómara af 15 að einnig bæri að sýkna fyrir þennan ákærulið. Dreg ég enga dul á að ég tel að sú niðurstaða sé mun rökréttari en niðurstaða meirihlutans.

Þegar dómurinn er skoðaður ber loks að líta til þess að meirihlutinn taldi ekki tilefni til að dæma Geir til neinnar refsingar fyrir þetta brot og dæmdi honum þar að auki málskostnað úr hendi ríkissjóðs.

Vafalaust munu einhverjir af þeim þingmönnum, sem ábyrgð báru á málarekstrinum gegn Geir H. Haarde, halda því fram að sú niðurstaða meiri hluta Landsdóms, að fella sök á Geir vegna eins tiltekins formsatriðis, réttlæti allan þennan leiðangur. Breytir líklega engu í því samhengi að málatilbúnaðurinn hefur að langmestu leyti runnið út í sandinn. Það eru kannski mannleg viðbrögð af þeirra hálfu, en stórmannleg eru þau ekki. Við megum ekki gleyma því að í þessu máli var hærra reitt til höggs en dæmi eru um í síðari tíma stjórnmálum hér á landi. Stjórnmálabaráttan var færð inn í réttarsali með fordæmalausum hætti af hálfu meirihluta þingsins og óhjákvæmilegt er að það hafi miklar afleiðingar. Hætt er við að þar muni sannast hið fornkveðna, að skamma stund verði hönd höggi fegin.