Fjandsamleg aðgerð framkvæmdastjórnar ESB

Morgunblaðið 17. apríl 2012
Staðan í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið krefst augljóslega mikillar umræðu. Sagt er að gangurinn í viðræðunum sjálfum hafi fram til þessa verið án teljandi vandkvæða, en þegar slík ummæli eru skoðuð verður að hafa í huga að eiginlegar viðræður eru ekki hafnar um neina þá kafla aðildarsamnings, sem líklegir eru til að valda ágreiningi. Samningamenn hafa með öðrum orðum einbeitt sér að tiltölulega ágreiningslausum málaflokkum en hvorki er ljóst hvenær viðræður um erfiðu kaflana eiga að hefjast né hver verði samningsafstaða aðila.

Frá því meirihluti Alþingis samþykkti aðildarumsókn sumarið 2009 hefur hins vegar margt breyst. Munar þar sennilega mestu um þá neikvæðu þróun sem átt hefur sér stað í efnahagslífi ESB-landanna – ekki síst Evrulandanna – frá þeim tíma. Afleiðingar kreppunnar á Evrópusambandið sjálft, uppbyggingu þess, verkefni og valdheimildir eru alls ekki allar komnar fram og það eina, sem er alveg ljóst á þessari stundu, er að breytingarnar verða verulegar.

Hinn pólitíski veruleiki hér á landi hefur líka tekið breytingum. Skiptir þar mestu máli að þeim hefur farið fjölgandi, sem átta sig á hinu raunverulega eðli aðildarviðræðnanna. Ýmsir, sem áður litu á viðræðurnar sem einhvers konar könnunarleiðangur, hafa áttað sig á því að í raun er um ræða aðlögunarferli. Á þessu tvennu er auðvitað grundvallarmunur.

Þessu til viðbótar hafa á þessu tímabili komið upp deilumál milli Íslands og Evrópusambandsins, sem breytt hafa stöðunni að mörgu leyti. Undanfarna mánuði hefur auðvitað borið hæst deiluna um makrílveiðar, en þar hefur komið fram að margir innan ESB telja að það sé forsenda ESB-aðildar að Íslendingar gefi eftir afar mikilvæga hagsmuni á því sviði.

Síðustu daga hefur svo auðvitað beinst sérstök athygli að þeirri ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að krefjast meðalgönguaðildar að Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Sú ákvörðun er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Fyrir það fyrsta er hún nýnæmi þar sem þetta er í fyrsta sinn sem ESB krefst þess að verða aðili að dómsmáli ESA gegn aðildarríki EFTA. Hér er því á engan hátt um að ræða venjubundna aðkomu ESB að slíku máli. Í annan stað felur krafan í sér að ESB tekur formlega afstöðu gegn Íslandi í Icesave-málinu, en fram til þessa hafa talsmenn ESB jafnan lýst því yfir að sambandið sem slíkt ætti ekki aðild að Icesave-deilunni heldur væri um að ræða „tvíhliða“ milliríkjamál milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar. Í þessu ljósi er því um að ræða eðlisbreytingu á aðkomu ESB að málinu.

Í kröfu um meðalgönguaðild felst beinlínis að ESB vill gerast aðili að dómsmáli gegn Íslandi og gerir þá kröfu að dómur verði felldur Íslandi í óhag. Kröfugerð framkvæmdastjórnarinnar verður því ekki skilin öðruvísi en svo að um sé að ræða fjandsamlega aðgerð gegn mikilvægum íslenskum hagsmunum. Að sjálfsögðu er eðlilegt að skoða og endurmeta samskipti Íslands og ESB í því ljósi.

Tilefnin til að endurskoða aðildarumsóknina hrannast því upp. Augljóst er að þeim hlýtur að fara fjölgandi bæði innan þings og utan, sem telja að gera beri langt hlé á viðræðunum eða hætta þeim fyrir fullt og allt.