Störfum í landinu hefur ekki fjölgað

Morgunblaðið 17. mars 2012
Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum mánuðum hvað eftir annað bent á tölur um fækkun fólks á atvinnuleysisskrá og talið þær til merkis um batnandi ástand á íslenskum vinnumarkaði. Nýjar vinnumarkaðsrannsóknir Hagstofu Íslands benda því miður í aðra átt. Niðurstöður stofnunarinnar sýna, að þrátt fyrir að dregið hafi úr skráðu atvinnuleysi fjölgar ekki í hópi þeirra, sem eru í vinnu. Störfum í landinu er með öðrum orðum ekki að fjölga – að minnsta kosti ekki svo neinu nemi.

Í skýrslu Hagstofunnar um vinnumarkað í febrúar, sem út kom fyrir fáeinum dögum, koma fram margvíslegar áhugaverðar upplýsingar. Þar kemur meðal annars fram að atvinnuþátttaka í landinu fer minnkandi frá ári til árs, að hlutfall þeirra sem taldir eru starfandi á vinnumarkaði (annað hvort í fullu starfi eða hlutastarfi) lækkar milli ára og að þeim fjölgar, sem teljast utan vinnumarkaðar, þ.e. hvorki í vinnu né á atvinnuleysisskrá. Ef horft er til fjölda þeirra einstaklinga, sem eru starfandi, kemur í ljós að þeir voru 160.700 í síðastliðnum febrúarmánuði, 160.600 í febrúar 2011, 163.700 í febrúar 2010 og 163.800 í febrúar 2009. Fyrir hrun, í febrúar 2008, var fjöldi starfandi einstaklinga 177.300.

Það eru auðvitað ekki nýjar upplýsingar að fjöldi starfa hafi tapast vegna hrunsins og afleiðinga þess. Á hinn bóginn hefur ekki komið jafn skýrt fram áður, að nú þremur og hálfu ári síðar miðar okkur ekkert áfram við að endurheimta þessi störf. Því miður.

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum fyrir rúmum þremur árum hefur forsætisráðherra hvað eftir annað gefið yfirlýsingar um að atvinnumálin væru í forgangi og að aðgerðir stjórnarinnar myndu skila þúsundum starfa á næstu misserum. Í mars og apríl 2009 talaði forsætisráðherra um að nýjar tillögur í atvinnumálum myndu skila 6.000 ársverkum á næstunni , þar af um 2.000 í tengslum við orkufrekan iðnað. Haustið 2010 var forsætisráðherra svolítið varkárari og talaði um 3.000 – 5.000 ný störf á næsta ári (2011). Í febrúar 2011 ræddi ráðherrann sérstaklega um uppbyggingu í orkuöflun og nýtingu og aðrar stórframkvæmdir, svo sem í samgöngumálum. Þá sagði hún: „Þessi verkefni öll gætu skapað 2.200 til 2.300 ársverk fljótt og 500 til 600 varanleg störf við framtíðarrekstur.“ Við sama tækifæri sagði hún líka: „Við verðum að skapa hér 10 til 15 þúsund ný störf á næstu árum.“ Svo má lengi telja.

Engin ástæða er til að draga í efa góðan ásetning forsætisráðherra í þessum efnum, en vinnumarkaðsrannsóknir Hagstofunnar benda ekki til mikils árangurs. Öðru nær. Ljóst virðist að í þeim tilvikum sem ný störf hafa orðið til á þessum þremur árum hafa önnur tapast. Sú niðurstaða hlýtur að verða bæði ríkisstjórn og Alþingi umhugsunarefni á næstunni. Það er ekki nóg að tala um að fjölga beri störfum ef raunveruleg stefna stjórnvalda og lagasetning á Alþingi miðar í aðra átt. Það er til lítils að lofa atvinnuuppbyggingu en stórauka á sama tíma álögur á atvinnulífið, hamla gegn fjárfestingu og reisa sífellt hærri þröskulda gagnvart öllum framkvæmdum í landinu. Stjórnarstefna af því tagi skilar ekki neinum árangri. Hún er ávísun á áframhaldandi stöðnun.