Blekkingarleikur í skattamálum

Morgunblaðið 26. október 2011
Ýmsir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa að undanförnu látið í veðri vaka að tekjuskattar mikils meiri hluta landsmanna hafi raun lækkað en ekki hækkað á undanförnum tveimur til þremur árum. Hafa þeir ekki síst byggt þennan málflutning sinn á því að niðurstöður álagningar ársins í ár vegna tekna ársins 2010 sýni að skattbyrði meirihluta hjóna og sambúðarfólks hafi lækkað frá árinu 2008.

Hér er um að ræða málflutning sem í besta falli mætti kalla misvísandi en í versta falli ósvífinn blekkingarleik. Til þess að fólk átti sig á staðreyndum málsins er nauðsynlegt að hafa í huga hverjar forsendurnar eru fyrir fullyrðingum af þessu tagi, hvað felst í hugtakinu skattbyrði og hvaða ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar hafa áhrif á niðurstöðuna.

Skattbyrðin ræðst af þremur þáttum

Þegar talað er um skattbyrði í þessu sambandi er almennt vísað til þess hlutfalls tekna, sem raunverulega fer í skatt að teknu tilliti til persónuafsláttar. Niðurstaðan ræðst þannig af þremur þáttum; í fyrsta lagi af skatthlutföllum, í öðru lagi af fjárhæð persónuafsláttar og í þriðja lagi af fjárhæð hinna skattskyldu tekna. Skatthlutföll og persónuafsláttur eru ákveðin með lögum frá Alþingi þannig að stefna stjórnarmeirihlutans á hverjum tíma ræður þar niðurstöðunni. Þriðji þátturinn, skattstofninn sjálfur, ræðst hins vegar af fjölmörgum þáttum, efnahagsástandinu almennt, niðurstöðum kjarasamninga, launaskriði og svo má lengi telja.

Skatthlutföll hafa hækkað

Þegar horft er til skatthlutfalla, þá er augljóst að núverandi ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar á Alþingi hafa ekki staðið að skattalækkunum heldur þvert á móti. Með upptöku þriggja þrepa tekjuskatts í árslok 2009 voru skatthlutföll á allan þorra skattgreiðenda hækkuð. Niðurstaðan var í grófum dráttum sú að hlutföllin hækkuðu á allar tekjur yfir 200 þúsund kr. á mánuði en stóðu í stað hjá þeim sem voru með lægri tekjur.

Persónuafslátturinn hefur að sönnu hækkað líka, þótt horfið hafi verið frá þeirri lagabreytingu, sem átti sér stað 2006, um að persónuafsláttur skyldi hækka sjálfkrafa á ári hverju í samræmi við verðbólgu, á mælikvarða vísitölu neysluverðs.

Skattskyldar tekjur hafa lækkað

Frá 2008 hefur hins vegar orðið sú meginbreyting, að skattskyldar tekjur hafa dregist verulega saman. Afleiðing þess er sú að persónuafslátturinn vegur þyngra í reikningsdæminu en á fyrri árum og skatthlutföllin þrjú reiknast núna af lægri fjárhæðum. Margt veldur þessari tekjulækkun, svo sem almenn launaþróun, fækkun starfa á vinnumarkaði, stóraukið atvinnuleysi, samdráttur í yfirvinnu, lækkun eða afnám ýmiss konar aukagreiðslna og svo má lengi telja.

Af tölulegum upplýsingum má þannig glöggt sjá að meginskýring þeirrar lækkunar skattbyrði, sem kemur fram í niðurstöðum álagningar fyrir árið 2010, er mikið fall í tekjum landsmanna. Lægri skattbyrði stórs hóps skattgreiðenda kemur því fram þrátt fyrir skattalegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, en ekki vegna þeirra. Það er því óneitanlega nokkuð öfugsnúið, jafnvel ósvífni, að talsmenn ríkisstjórnarinnar skuli nota þennan mælikvarða til að sýna fram á árangur stefnu sinnar.

Aðrir skattar snerta líka heimilin

Hér að framan hef ég einungis fjallað um breytingar á skattbyrði í sambandi við tekjuskatt einstaklinga. Það sýnir hins vegar auðvitað bara takmarkaða mynd af áhrifum skattastefnu núverandi ríkisstjórnar. Óbeinir skattar á borð við virðisaukaskatt og vörugjöld af ýmsu tagi hafa til dæmis verið hækkaðir, sem auðvitað kemur við pyngju allra landsmanna, hverjar svo sem tekjurnar eru. Ótalmargar skattahækkanir á atvinnulífið í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa svo haft önnur skaðleg áhrif á efnahagsstarfsemina í landinu og þannig á afkomu heimilanna, en umfjöllun um það fellur utan efnis þessarar greinar.