Áhættan af samþykki Icesave er öll Íslandsmegin

Morgunblaðið 8. apríl 2011
Í málflutningi stuðningsmanna þess að Íslendingar gangist undir nýjasta Icesave-samninginn birtist hvað eftir annað það sjónarmið að með samþykki sé óvissu eytt, málinu sama sem lokið og ríkið þurfi sennilega ekki að greiða Bretum og Hollendingum mikið, kannski ekki neitt. Um leið halda þeir því fram að synjun samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu leiði til gríðarlegrar óvissu, sem fylgi því að málið fari fyrir dómstóla, auk þess sem dómsniðurstaða verði trúlega miklu óhagstæðari en samningurinn. Áróðurinn gengur með öðrum orðum út á að sé svo til áhættulaust en nei feli í sér mikla áhættu.

Þessi uppstilling er í senn áróðurskennd og óheiðarleg. Að sönnu ríkir óvissa um afleiðingar þess að Íslendingar hafni Icesave-lögunum. Enginn getur með vissu fullyrt um viðbrögð Breta og Hollendinga, málsmeðferð fyrir stofnunum EFTA eða hugsanlegar niðurstöður íslenskra dómstóla, ef yfir höfuð verða höfðuð einhver dómsmál. Bæði sérfræðingar og leikmenn hafa reynt að meta þetta en komist að afar ólíkum niðurstöðum. Ég hef mína eindregnu skoðun í þeim efnum og hef ekki áhyggjur af þessum þætti, en aðrir eru ólíkrar skoðunar. Hvað sem því líður er aðeins um spádóma að ræða.

En hið sama á líka við um afleiðingar þess að Icesave-lögin verði staðfest. Áhættuþættirnir í því sambandi eru fjölmargir og geta haft miklar afleiðingar. Getur þar munað umtalsverðum fjárhæðum og breytingar á einstökum þáttum til hins verra geta orðið okkur Íslendingum afar þungbærar.

Í fyrsta lagi má nefna, að enn á eftir að leiða til lykta margvíslegan réttarágreining og ýmis dómsmál, sem geta haft veruleg áhrif á endanlega greiðslubyrði Íslendinga. Þetta er vert að hafa í huga, því stundum er því haldið fram að allri áhættu, sem tengist dómsmálum, verði eytt með samþykki samningsins.

Í annan stað eru enn fyrir hendi óvissuþættir, sem varða endurheimtur á eignum gamla Landsbankans, bæði hve mikið fæst upp í kröfur og hvenær unnt verður að greiða út úr búinu. Síðarnefnda atriðið skiptir miklu máli, því ljóst er að á meðan ekki er hægt að greiða upp í kröfur safnast upp vextir, sem Íslendingum ber að greiða verði samningurinn staðfestur. 

Í þriðja lagi liggur fyrir veruleg áhætta, sem tengist þróun gengisins. Hún liggur aðallega í því að á meðan greiða þarf Hollendingum í Evrum og Bretum í pundum á næstu árum er krafa Tryggingasjóðs innstæðueigenda á hendur búi gamla Landsbankans fastákveðin miðað við gengi krónunnar í apríl 2009. Það er einmitt þessi krafa Tryggingasjóðsins, sem á samkvæmt samningnum að standa undir megninu af greiðslunum til Breta og Hollendinga og þar með að draga úr þeim kostnaði, sem lendir á ríkissjóði. Frávik í sambandi við þróun gengisins geta leitt til þess að endanlegur kostnaður íslenskra skattgreiðenda verði allt frá einhverjum tugum milljarða til meira en 200 milljarða króna. 

Af þessu má sjá, að það er fjarri öllum sanni að halda því fram að óvissu og áhættu verði eytt með því að samþykkja Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Verði niðurstaðaner alveg ljóst að veigamiklir óvissuþættir verða áfram fyrir hendi. Áhættan verður öll Íslandsmegin, því samkvæmt samningnum munu Bretar og Hollendingar alltaf fá höfuðstól kröfu sinnar greiddan að fullu með umsömdum vöxtum. Dragist greiðslur af hálfu Íslendinga af einhverjum sökum framlengist greiðslutíminn og á meðan bætast auðvitað við vextir og vaxtavextir.

Ég verð að játa, að það hefur haft veruleg áhrif á afstöðu mína til samningsins hversu mjög hallar á okkur Íslendinga varðandi þessa áhættuþætti. Þegar við bætist, að forsendur samninganna eru ekki byggðar á viðurkenndum, lögmætum kröfum heldur á þvingunaraðgerðum, þrýstingi og misjafnlega dulbúnum hótunum, þá var ekki erfitt fyrir mig að komast að niðurstöðu þegar málið kom til atkvæða á Alþingi. Sama á auðvitað við um þjóðaratkvæðagreiðsluna á morgun.