Ótæk tillaga um stjórnlagaráð

Morgunblaðið 28. febrúar 2011
Nú lítur út fyrir að á næstu dögum verði lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um að forseti Alþingis skipi 25 manna stjórnlagaráð til að vinna að tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Er það í samræmi við tillögu meiri hluta samráðshóps sem forsætisráðherra skipaði til að fjalla um viðbrögð við þeirri ákvörðun Hæstaréttar að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar í nóvember. Meiri hluti samráðshópsins lagði einnig til að þeir hinir sömu skuli skipaðir í ráðið og fengu á sínum tíma útgefin kjörbréf á grundvelli hinna ógildu kosninga.

Með þessari aðferð væri Alþingi augljóslega að fara hressilega á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Kosningar, sem hafa verið ógiltar, væru notaðar sem grundvöllur fulltrúavals í ráðið. Tillagan felur einfaldlega í sér að úrslit stjórnlagaþingskosninganna eigi að standa, þrátt fyrir ógildinguna. Í þessu sambandi breytir engu þótt nafni samkomunnar verði breytt úr stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð og fulltrúarnir taki við skipunarbréfi úr hendi forseta Alþingis í stað kjörbréfs frá landskjörstjórn. Miðað við útfærða tillögu og greinargerð samráðshópsins er ekki gert ráð fyrir neinum öðrum breytingum. Gert er ráð fyrir að sami hópur hafi með höndum sama verkefni og að öll umgjörð starfsins verði eins eða því sem næst eins. Samþykki Alþingi tillöguna gæti það alveg eins afgreitt frá sér ályktun sem hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að hafa beri að engu ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar 2011.“ Myndu margir alþingismenn treysta sér til að styðja tillögu með slíku orðalagi?

Rétt er að rifja upp, að það var Alþingi sjálft, sem ákvað að fela Hæstarétti ákvörðunarvald í kærumálum vegna stjórnlagaþingskosninganna og að skera úr um lögmæti þeirra. Hæstiréttur tók sér þetta vald ekki sjálfur og ekki var heldur um að ræða ákvörðun þingheims einhvern tímann í fyrndinni. Hér var um að ræða meðvitaða ákvörðun núverandi þingmanna, sem þeir tóku við þinglega meðferð frumvarps forsætisráðherra síðasta vor. Jafnvel þótt meiri hluti þingmanna kunni nú hugsanlega að vera ósáttur við niðurstöðu Hæstaréttar réttlætir það ekki viðbrögð af þessu tagi.

Ekki breytir neinu þótt stuðningsmenn tillögunnar segist í orði kveðnu vilja fara að niðurstöðu Hæstaréttar ef þeir gera það ekki í raun. Ekki vegur heldur þungt sá málflutningur, sem heyrst hefur frá tillöguhöfundum, að ákvörðun Hæstaréttar feli aðallega í sér leiðbeiningar um hvernig beri að haga kosningum í framtíðinni og skylda Alþingis sé fyrst og fremst að gæta þess að annmarkarnir eða mistökin, sem leiddu til ógildingar, komi ekki upp aftur. Auðvitað er rétt, svo langt sem það nær, að bæði löggjafinn og framkvæmdarvaldið verða að læra af reynslunni. Kjarni málsins er hins vegar sá að tilteknar kosningar voru ógiltar og við þær aðstæður getur Alþingi ekki tekið ákvörðun um að láta úrslitin gilda eins og ekkert hafi í skorist. Það er einfaldlega ekki tæk niðurstaða.