Eina stefnan sem stjórnarflokkarnir eru sammála um?

Morgunblaðið 7. janúar 2011
Undanfarna daga hefur embætti ríkisskattstjóra birt auglýsingar um ýmsar breytingar á sköttum, sem tóku gildi nú um áramótin. Þessar auglýsingar eru áminning til heimila og fyrirtækja í landinu um þær nýju skattahækkanir, sem þingmenn ríkisstjórnarflokkanna samþykktu nú á jólaföstunni. 

Þar var um að ræða þriðju lotu skattahækkana, sem þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna stóð að á innan við einu og hálfu ári. Fyrstu aðgerðirnar áttu sér stað í júní 2009 og höfðu umtalsverð áhrif bæði á almenning og athafnalíf. Mestu breytingarnar voru hins vegar ákveðnar í desember 2009 og fólu trúlega í sér mestu skattahækkanir á einu bretti í síðari tíma sögu landsins.

Skattahækkanirnar nú eru að sönnu ekki miklar í samanburði við fyrri aðgerðir ríkisstjórnarmeirihlutans. Heildaráhrifin verða trúlega innan við 10 milljarðar króna en ekki margir tugir milljarða eins og raunin var með fyrri hækkanirnar. Þær eru hins vegar viðbót, sem gerir afleiðingarnar af slæmri skattastefnu enn verri.

Skattahækkanir í þremur lotum 

Rétt er að rifja upp í megindráttum hvaða skattar hafa verið hækkaðir frá sumri 2009. Í júní það ár var meðal annars samþykkt hækkun á tryggingagjaldi, nýju skattþrepi bætt við á hærri tekjur einstaklinga, fjármagnstekjuskattur hækkaður, vörugjöld hækkuð og ýmsar vörur færðar upp í efra þrep virðisaukaskatts. 

Í desember 2009 var tekjuskattur einstaklinga hækkaður og fleiri þrepum bætt við, tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur hækkaður, skattar á eldsneyti og bifreiðar hækkaðir, áfengis- og tóbaksgjöld hækkuð, önnur vörugjöld hækkuð og efra þrep virðisaukaskatts hækkað upp fyrir þau mörk sem þekkjast í hinum vestræna heimi. Þá var bætt við nýjum sköttum svo sem hinum svokallaða auðlegðarskatti á einstaklinga og sérstöku kolefnisgjaldi.

Nú fyrir jólin var svo bætt í með enn frekari hækkunum á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja, skatthlutfall auðlegðarskatts hækkað og eignamörk lækkuð, erfðafjárskattur var tvöfaldaður, áfengis- og tóbaksgjöld hækkuð, kolefnisgjald hækkað og vörugjöldum á bifreiðar breytt með margvíslegum hætti með það að markmiði að auka tekjur ríkisins af þeim tekjustofni. Þá var lagður á nýr skattur á fjármálastofnanir.

Hér er alls ekki um að ræða tæmandi talningu á þeim skatta- og gjaldahækkunum, sem stjórnarmeirihlutinn á þingi hefur samþykkt. Ótaldar eru hækkanir á ýmsum smærri tekjustofnum sem og margvíslegar tæknilegar breytingar, sem sumar eiga að leiða til aukinnar skattheimtu en aðrar geta leitt til aukins flækjustigs í skattframkvæmdinni. Hvort tveggja felur hins vegar í sér óhagræði fyrir skattgreiðendur, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki.

Skattastefnan vinnur gegn uppbyggingu 

Á hátíðarstundum segja forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, að endurreisn atvinnulífsins, fjölgun starfa og aukinn kaupmáttur almennings eigi að vera meðal helstu forgangsverkefna stjórnmálamanna um þessar mundir. Skattastefna ríkisstjórnarinnar gengur hins vegar gegn öllum þessum markmiðum. Hækkun beinna og óbeinna skatta á einstaklinga rýrir auðvitað kaupmáttinn. Hækkanir á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja vinna gegn uppbyggingu í atvinnulífinu, draga úr fjárfestingu og sköpun nýrra atvinnutækifæra. Hækkanir á tryggingagjaldi vinna beinlínis gegn því að fyrirtæki bæti við sig starfsfólki. Er þá aðeins nefnt það helsta. Afleiðingar skattastefnu ríkisstjórnarinnar eru því miður þær að dýpka kreppuna og seinka þeirri uppbyggingu, sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda. Það einkennilega er, að þessi stefna virðist vera það eina, sem sæmileg sátt er um í þingflokkum stjórnarflokkanna. Á meðan þar er deilt um nær öll stærstu viðfangsefni stjórnmálanna er að því er virðist góð sátt um skattastefnuna, þrátt fyrir að hinar skaðlegu afleiðingar blasi við út um allt samfélagið.