Ríkisstjórnin getur ekki vikist undan ábyrgð

Morgunblaðið 26. janúar 2011
Öllum má vera ljóst að mikið þarf til að koma til að Hæstiréttur ógildi almennar kosningar í landinu. Það hefur nú gerst og fram hjá þeirri niðurstöðu verður ekki komist. Lögin um stjórnlagaþing, sem meiri hluti Alþingis samþykkti síðastliðið sumar, fela Hæstarétti að úrskurða í kærumálum vegna kosninganna. Sú niðurstaða liggur nú fyrir og ákvörðun réttarins er bæði samhljóða og skýr. Þar kemur fram að þeir fjölmörgu annmarkar, sem bent hefur verið á í sambandi við kosningarnar, leiði til ógildingar þeirra. Ógilding kosninganna verður til þess að óbreyttu, að ekki verður af því stjórnlagaþingi, sem gert var ráð fyrir að tæki til starfa í næsta mánuði. 

Næstu daga þurfa menn innan þings og utan auðvitað að fara yfir hvað fór úrskeiðis. Við fyrstu sýn virðist ljóst að rætur vandans liggja í þeirri lagasetningu, sem ríkisstjórnin hafði frumkvæði að og þingið samþykkti, með atkvæðum stjórnarflokkanna og hluta stjórnarandstöðunnar. Þar var um að ræða tilraunastarfsemi, sem leiddi til ótal vandamála í framkvæmd. Það er ekki stórmannlegt af einstaka ráðherrum og þingmönnum að reyna að varpa allri ábyrgðinni í því sambandi á þá sem þurftu að framfylgja lögunum, hvort sem um var að ræða landskjörstjórn eða embættismenn. Hvað sem öðru líður hlýtur ábyrgðin að hvíla þyngst á þeim, sem komu málinu af stað og linntu ekki látunum á þingi fyrr en það var á endanum afgreitt. Þar var forsætisráðherra fremstur í flokki.

Óháð forsögu málsins stendur Alþingi nú frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar væri hugsanlegt að setja málið á ís, um sinn að minnsta kosti. Þá gæfist kostur á að fara yfir allan grundvöll málsins, hvort og þá hvernig ætti að efna til stjórnlagaþings, hvenær og með hvaða hætti ætti að kjósa, og svo framvegis. Vonandi gæti sú umræða orðið yfirvegaðri og skynsamlegri en þegar málið kom síðast til kasta þingsins.

Hins vegar er auðvitað hægt að fara þá leið að fara strax í nýja lagasetningu, þar sem reynt yrði að takast á við vandamálin, sem upp komu í kosningunum í nóvember og færa til betri vegar þau atriði sem Hæstiréttur taldi að leiða ættu til ógildingar. Þá þyrfti að sjálfsögðu að kjósa að nýju til stjórnlagaþings og fresta öllum tímasetningum í samræmi við það. Væri reynt að fara þessa leið er hins vegar rétt að hafa í huga, að alls ekki er víst að málið nyti sama stuðnings á Alþingi og á síðasta ári. Þar kemur margt til, auk þeirra vandamála sem í ljós hafa komið varðandi sjálft kosningafyrirkomulagið. Í fyrsta lagi er alltaf að verða skýrara og skýrara að ekkert samhengi var milli ákvæða stjórnarskrárinnar og þeirra vandamála sem leiddu til bankahrunsins 2008. Stjórnlagaþing og breytingar á stjórnarskrá í einhverju bráðræði eru ekki heldur með neinum hætti svar við þeim vandamálum sem hrunið olli. Þá hefur komið í ljós að kostnaður við stjórnlagaþing verður fyrirsjáanlega miklu meiri en gert var ráð fyrir á síðasta ári. Síðast en ekki síst er áhugi almennings á stjórnlagaþingi mun minni en nokkurn grunaði. Kjörsóknin í nóvember sýndi svo ekki verður um villst að hugmyndir um stjórnlagaþing eiga ekki neinn sérstakan hljómgrunn hjá miklum meiri hluta landsmanna. Fleira mætti nefna, en allt þetta hlýtur að vera þingmönnum verulegt umhugsunarefni. 

Um þetta verður auðvitað fjallað á næstu dögum. Boltinn er augljóslega hjá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum á þingi. Sennilega mun forsætisráðherra skipa nefnd til að fjalla um málið og að svo stöddu er ekki ástæða til amast við því.