Ákæruvald Alþingis og ábyrgð þingmanna

Morgunblaðið 17. september 2010
Í þingræðu á þriðjudaginn sagði Steingrímur J. Sigfússon að þingmenn gætu ekki skorast undan því hlutverki, sem þeim væri falið samkvæmt stjórnarskrá og lögum, að taka afstöðu til þess hvort ákæra eigi fyrrverandi ráðherra. Þetta er auðvitað rétt hjá fjármálaráðherranum svo langt sem það nær, en með því er auðvitað ekki sagt að niðurstaða þingmanna hljóti að verða sú að samþykkja ákærurnar. 

Grundvallarreglur sakamálaréttarfars gilda 

Tvær tillögur liggja nú fyrir Alþingi um að gefa beri út ákærur af þessu tagi og hefja dómsmeðferð fyrir Landsdómi. Til þessara tillagna mun þingið taka afstöðu á næstu dögum. Þingmenn þurfa í þessum málum að svara þeirri erfiðu spurningu hvort gefa skuli út ákærur og setja um leið tiltekna einstaklinga í stöðu sakborninga í refsimáli. Þegar þingmenn gera upp hug sinn verða þeir að hafa í huga sömu sjónarmið og öðrum ákærendum ber að fylgja. Ekki er um það deilt að í málum út af ráðherraábyrgð á að fylgja öllum grundvallarreglum um sakamálaréttarfar að svo miklu leyti sem lögin um Landsdóm kveða ekki sérstaklega á um annað. Þannig verður t.d. að virða almenn réttindi sakborninga, sanna að fyrir hendi séu skilyrði um saknæmi og ólögmæti, gæta að skýrleika refsiheimilda, sýna fram á að meint ólögmæt háttsemi falli undir refsiákvæði og svo má áfram telja. 

Refsimál en ekki hugmyndabarátta 

Þingmenn geta ekki við ákvörðun um ákæru gert minni kröfur til sjálfra sín heldur en þeir gera til annarra handhafa ákæruvalds. Þeir geta ekki heldur leyft sér að láta einhver önnur sjónarmið, pólitísk eða persónuleg, ráða afstöðu sinni. Nauðsynlegt er að árétta þetta sérstaklega í ljósi vanhugsaðra eða afhjúpandi ummæla sumra þingmanna og ráðherra um að ákærurnar séu liður í einhvers konar hugmyndafræðilegu eða pólitísku uppgjöri, eða að leikurinn sé til þess gerður að sefa reiði almennings. Sjónarmið af því tagi eiga að sjálfsögðu ekki við þegar taka á ákvörðun um ákærur í refsimálum. Ákærur á slíkum forsendum væru ekkert annað en valdníðsla.

Eru meiri eða minni líkur á sakfellingu? 

Meginspurningin, sem ákærendur verða að taka afstöðu til við ákvörðun um ákæru, er sú hvort líkur á sakfellingu í dómi séu meiri en líkur á sýknu. Fyrir slíkri niðurstöðu verða að vera sterk rök. Ekki ber að gefa út ákæru til þess eins að gefa sakborningi tækifæri til að verja sig eða til þess að athuga hvort hugsanlega hafi verið um refsiverða háttsemi að ræða. Tilgangur ákæru hlýtur alltaf að vera sá að ná fram sakfellingu vegna tiltekins brots eða brota og að beitt verði refsingu eftir því sem við á. Meginröksemdin fyrir þessari grundvallarreglu felst að sjálfsögðu í því, að ákæra gegn einstaklingi í sakamáli er í sjálfu sér þungbær fyrir þann sem í hlut á. Í ákæruvaldinu sem slíku felst mikið vald og því ber að sjálfsögðu að beita af varúð.

Þingið getur ekki afturkallað ákærurnar 

Reglur sakamálaréttarfars gera ráð fyrir að ákvörðun ákæru sé ekki tekin fyrr en að lokinni rannsókn máls. Þá ber ákæranda að taka ákvörðun sína og horfa bæði til þeirra atriða sem horft geta til sýknu og sektar. Vandinn við Landsdómsfyrirkomulagið er ekki síst sá, að þingið á að taka ákvörðun um ákæru áður en rannsókn eftir reglum sakamálaréttarfarsins hefst og að saksóknarinn, sem þingið kýs samhliða, er bundinn af ákærunni eins og hún birtist í tillögu þingsins. Hann getur þannig hvorki breytt ákærunni né fellt hana niður. Eftir að þingsályktunartillaga um ákæru hefur verið samþykkt er ákvörðunarvald um framhald málsins líka komið úr höndum þingsins. Að vísu er talið að koma megi að viðbótarkæruatriðum með nýrri þingsályktunartillögu en þingið getur hins vegar ekki afturkallað málsóknina. Þetta á auðvitað að leiða til þess að þingmenn beiti ákæruvaldi sínu af sérstakri varfærni.

Margvíslegar efasemdir

Hér er ekki kostur á að rekja þær fjölmörgu efasemdir sem fram hafa komið síðustu daga í tilefni af ákærutillögunum. Þó er rétt að minna á að löggjöfin um Landsdóm hefur lengi sætt gagnrýni út frá réttaröryggis- og mannréttindasjónarmiðum. Jafnframt hafa komið fram rökstuddar efasemdir um að saknæmisskilyrði um ásetning eða stórfellt gáleysi séu fyrir hendi, að refsiheimildirnar séu nægilega skýrar og í samræmi við réttarþróun og dómaframkvæmd og loks um að unnt sé að heimfæra meinta ólögmæta háttsemi þessara tilteknu einstaklinga undir tilgreind refsiákvæði með viðhlítandi hætti. 

Vafa ber að túlka hinum ákærðu í hag 

Öll þessi atriði verða þingmenn að hafa í huga þegar þeir taka afstöðu til ákærutillagnanna. Ábyrgð þeirra og skylda felst í því að byggja afstöðu sína á vel yfirveguðum og rökstuddum forsendum í samræmi við meginsjónarmið sakamálaréttarfars og grunnhugmyndum um réttarríkið. Niðurstaðan verður að byggjast á sannfæringu um að meiri líkur séu á sakfellingu en sýknu. Verða þingmenn í því sambandi að hafa í huga að sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu og allan vafa ber að túlka hinum ákærðu í hag.