Hve mörg störf tapast vegna ríkisstjórnarinnar?

Morgunblaðið 31. mars 2010
Undanfarna daga hafa ýmsir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gert sér mat úr þeirri kenningu eins af hagfræðingum Seðlabankans, að 3.300 störf í landinu geti tapast vegna frekari tafa á afgreiðslu Icesave-samninganna. Þessi spuni stjórnarliða er auðvitað ekkert annað en framhald á þeim hræðsluáróðri, sem rekinn hefur verið frá vori 2009 til þess að fá þing og þjóð til að fallast á fullkomlega óviðunandi skilmála vegna þessara samninga, sem ekki byggja á neinum haldbærum lagalegum forsendum. Hér er líka um að ræða lið í annars konar áróðri stjórnarliða, sem felst í því að afsaka ráðleysi sitt og dáðleysi í öllum öðrum málum með töfum vegna Icesave.

Allt er þetta til þess ætlað draga athyglina frá því að lítið hefur þokast í tíð þessarar ríkisstjórnar í þá átt að ná efnahagslífinu upp úr öldudalnum. Það ætti út af fyrir sig að vera verðugt rannsóknarefni fyrir reiknimeistara Seðlabankans eða aðra hagfræðinga að leggja mat á hve mörg störf hafa nú þegar tapast eða munu tapast á næstu mánuðum vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda. 

Það mætti til dæmis skoða hvaða áhrif það hefur haft á atvinnuástandið að halda uppi gríðarlega háu vaxtastigi á samdráttartímum. Hefðbundin viðhorf í hagfræði gera ráð fyrir því að háum vöxtum sé beitt gegn þenslu en lágum vöxtum til að örva hagkerfi í niðursveiflu. Hér á landi er í gangi tilraun í peningamálum, sem gengur út á hið gagnstæða. Einnig mætti leggja mat á það hvort gríðarlegar skattahækkanir á almenning og fyrirtæki séu til þess fallnar að örva efnahagslífið. Auðvitað sjá allir að áhrifin eru þveröfug. Hækkun tryggingagjalds stóreykur til dæmis kostnað fyrirtækja af því að hafa fólk í vinnu. Hækkun á fjármagnstekjuskatti fælir fjárfesta frá því að leggja fé í atvinnurekstur. Hækkun tekjuskatta einstaklinga og fyrirtækja dregur úr getu þeirra til að standa í skilum vegna skuldbindinga og hefur umtalsverð áhrif á bæði neyslu þeirra og fjárfestingar. Hækkun óbeinna skatta eykur svo enn á þessi áhrif og dregur úr stórlega úr veltu í samfélaginu. Svona má lengi telja. Skyldu þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vera til þess fallnar að fjölga störfum eða er hugsanlegt að þær fækki þeim stórlega? 

Þá eru ótalin áhrif þess stjórnmálalega og stjórnsýslulega vandræðagangs, sem tafið hefur mánuðum saman fyrir stórframkvæmdum, einkum á sviði orkunýtingar. Á það jafnt við um framkvæmdir sem löngu voru ákveðnar og þær, sem enn eru á undirbúningsstigi. Pólitísk óvissa og beinn fjandskapur annars stjórnarflokksins og hluta hins við alla uppbyggingu í þeim geira er að sjálfsögðu ekki til þess fallinn að auka mönnum bjartsýni varðandi fjölgun atvinnutækifæra á næstunni. 

Neikvætt viðhorf núverandi ríkisstjórnar til atvinnulífsins er reyndar sérstakt áhyggjuefni, einmitt á tímum sem þessum þegar samstarf stjórnvalda, fyrirtækja og launþega er mikilvægara en verið hefur um langt árabil. Ríkisstjórnin virðist engan veginn átta sig á því að aukinn hagvöxtur og verðmætasköpun í atvinnulífinu er forsenda þess að unnt verði að ná landinu út úr kreppunni. Án þess verður ekki hægt að fjölga störfum, auka kaupmátt og bæta lífskjör. Verðmætasköpun í atvinnulífinu er líka forsenda þess að tekjur ríkisins aukist og unnt verði að standa vörð um sameiginleg verkefni og velferðarþjónustu til frambúðar. Það er skammgóður vermir fyrir ríkissjóð að hækka skattprósentur hvað eftir annað ef skattstofnarnir – tekjurnar og veltan í samfélaginu - dragast stöðugt saman. 

Þegar á allt þetta er litið blasa við þær spurningar, sem getið var um hér í upphafi: Hve mörg störf hafa tapast vegna stefnu núverandi ríkisstjórnar og hversu mörg störf gætu tapast á næstu misserum, verði hún áfram við völd?