Langlundargeð þjóðarinnar er á þrotum

Morgunblaðið 25. mars 2010
Engum dylst að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd þarf að glíma við viðamikil verkefni og erfiða stöðu á mörgum vígstöðvum. Það er enginn öfundsverður af því að stýra þjóðarskútunni um þessar mundir, eins og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur verið óþreytandi við að benda á. Þessi skilningur á hinni erfiðu stöðu hefur leitt til þess að á nærfellt 14 mánaða valdatíma stjórnarinnar hafa landsmenn sýnt henni umtalsverða þolinmæði í þeirri von að senn færi Eyjólfur eitthvað að hressast. Á það jafnt við um samtök vinnuveitenda og launafólks, önnur hagsmunasamtök, fjölmiðla, almenning í landinu og jafnvel stjórnarandstöðuna á Alþingi. Trúlega upplifa forystumenn ríkisstjórnarinnar stöðuna með öðrum hætti – enda ekkert sérstaklega þekktir fyrir að taka gagnrýni vel – en miðað við síversnandi ástand í þjóðfélaginu verður ekki annað sagt en að stjórninni hafi verið sýnt mikið langlundargeð.

Margt bendir hins vegar til þess að þessi þolinmæði í garð ríkisstjórnarinnar sé nú þrotin. Stöðugleikasáttmálinn svonefndi er úr sögunni vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnarinnar. Aðilar vinnumarkaðarins leggja fram langa lista um vanefndir stjórnvalda og fordæmalausan skort á samráði. Vaxandi vonleysis gætir bæði meðal almennings og í atvinnulífinu um að nokkuð sé að þokast í rétta átt. Jafnvel í hópi stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar vaxa efasemdir um getu hennar dag frá degi. Ráðherrar og einstakir þingmenn stjórnarflokkanna tala út og suður í flestum málum og eru ósparir á alls konar yfirlýsingar, upphlaup og fjölmiðlaspuna til að koma sér í fréttatímana, en miklu minna fer fyrir raunverulegum tillögum, sem gætu stuðlað að því að ná íslensku efnahagslífi upp úr öldudalnum. 

Öllum er líka ljós sá djúpstæði ágreiningur, sem er fyrir hendi bæði milli stjórnarflokkanna og innan þeirra um margvísleg grundvallarmál, hvort sem um er að ræða aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstrinum, atvinnuuppbyggingu, samskipti við önnur ríki eða einstök smærri mál. Í hverju málinu á fætur öðru ríkir fullkomin óvissa um það hvort stjórnin hafi meiri hluta á þingi fyrir þeim tillögum, sem hún leggur fram. Við búum með öðrum orðum við ákveðna tegund stjórnarkreppu, sem ekki sér fyrir endann á. Ríkisstjórnin situr sem fastast og verður líklega ekki felld með vantrausti á þingi á næstunni, en hún er hins vegar gersamlega ófær um að klára þau mikilvægu verkefni, sem henni hefur verið trúað fyrir. Skýringin á því er ekki bara samstöðuleysi heldur ekki síður fullkomin skortur á raunverulegum tillögum til úrbóta. Ofan á aðra erfiðleika, sem íslenskt þjóðarbú þarf nú að glíma við, er upplausnin og úrræðaleysið í ríkisstjórninni og í stjórnarflokkunum orðið sjálfstætt, illviðráðanlegt vandamál.

Það blasir við flestum að svona getur þetta ekki gengið lengur. Ríkisstjórnin skapar miklu fleiri vandamál en hún leysir. Hún er ófær um að koma sér saman um nokkuð sem til framfara gæti horft og þá sjaldan að hún nær samstöðu í eigin röðum um einhverjar aðgerðir eru þær til þess fallnar að magna upp erfiðleikana og dýpka kreppuna. Skattahækkanirnar síðasta sumar og nú um áramótin eru alvarlegustu dæmin um það. Þjóðin verður að losan við þessa ríkisstjórn. Hennar tími er liðinn.