Ætlar Björgvin G. í alvöru að vinna með VG?

AMX 17. apríl 2009
Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi viðskiptaráðherra, skrifar pistil á vef Pressunnar í gær þar sem hann setur fram afar afdráttarlausa stefnu í Evrópumálum. Hann segir meðal annars:

„Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er ekki lausn á öllum okkar vanda en það er engin lausn til lengri tíma án aðkomu ESB og umsóknar um aðild. Styrking gengis og trúverðugleiki í samfélagi þjóðanna skipta sköpum í endurreisninni og því er kosið um þetta gríðarlega mikilvæga mál í vor. Stærstu mistök síðustu stjórnar var að skjóta þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar á frest. Því fór sem fór. Það mun ekki gerast aftur. En kjósendur hafa um það síðasta orðið eftir rúma viku.“

Þessi sjónarmið ítrekar Björgvin svo þegar líða tekur á pistilinn og segir:

„Við megum aldrei aftur fresta framtíðinni með því að skjóta Evrópu- og gjaldmiðilsmálum á frest. Þau mistök voru dýrkeypt við síðustu stjórnarmyndun og eru að hluta orsök þess hve alvarlegir erfiðleikar okkar eru nú. Á það bentum við mörg en það skortir enn pólitíska samstöðu um málið í landinu.“

Svo fer Björgvin lofsamlegum orðum um stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum og ræðst á stefnu Sjálfstæðisflokksins, en af einhverjum ástæðum lætur hann alveg ógert að fjalla um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, samstarfsflokks Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Það hlýtur sérstaklega að koma á óvart í ljósi þess að það er yfirlýstur ásetningur beggja flokkanna að starfa áfram saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.

Hugsanlega má finna skýringu á þögn Björgvins um stefnu VG í þeirri afdráttarlausu afstöðu sem forystumenn VG hafa sett fram í þessum efnum. Þeir hafa nefnilega ítrekað lýst því yfir að VG telji hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins. Sú stefna var áréttuð með afar skýrum hætti á nýafstöðnum landsfundi VG og á vef Morgunblaðsins í gær mátti sjá eftirfarandi frétt þar sem meðal annars er vitnað í orð Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokksins:

„Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að stjórnarflokkarnir hafi ekki gert með sér neitt samkomulag um Evrópumál. Þeir gangi til kosninga með ólíkar stefnur í þessu máli.

Forystumenn beggja flokka hafa lýst yfir áhuga á að starfa saman í ríkisstjórn eftir kosningar fái þeir til þess meirihluta. Steingrímur hafnar því að það feli í sér að flokkarnir hafi leyst ágreining milli þeirra um Evrópumál.

„Flokkarnir tefla fram stefnu sinni í þessum kosningum nákvæmlega eins og verið hefur. Síðan geri ég ráð fyrir því að þeir flokkar sem hyggja á stjórnarsamstarf setjist niður og ræði þau mál. Stefna okkar í VG liggur alveg skýr fyrir og við fylgjum henni fast eftir þó að við höfum ekki verið með neinn hávaða í þeim efnum. Menn geta alveg treyst því að við stöndum á okkar grundvallarstefnu í þessum efnum eins og öðrum,“ sagði Steingrímur J.“

Hér er með öðrum orðum sagt að flokkarnir hafi gerólíka stefnu í því máli sem Björgvin G. Sigurðsson telur stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. En Björgvin ætlar samt sem áður að vinna áfram með VG og Steingrími. Hvernig má það vera? Getur áframhaldandi samstarf flokkanna gengið upp án þess að annar hvor þeirra hverfi alfarið frá fyrri stefnu? Hvor flokkurinn skyldi nú láta undan? Hvor mun gefa eftir, Björgvin eða Steingrímur? Það er útilokað að báðir fái sínu framgengt. Annar hvor mun ganga á bak orða sinna gagnvart kjósendum sínum. Það verður verulega spennandi að fylgjast með því hvor verður fyrri til að kyngja stóryrðunum og hvaða verði það verður keypt í hrossakaupunum sem framundan eru milli þessara flokka.