Áformin um stjórnlagaþing verða æ óljósari
AMX 5. apríl 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Áform stjórnarflokkanna og fylgiflokka þeirra á Alþingi, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins, um stjórnlagaþing verða æ óljósari. Fulltrúar þessara flokka í sérnefnd um stjórnarskrármál hafa skilað breytingartillögum og nefndaráliti, þar sem er að finna nýjar tillögur um stjórnlagaþing, gerólíkt því sem gert er ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi þessara flokka.

1. Fyrsta stjórnlagaþing Framsóknarflokksins
Áður en lengra er haldið er ástæða til að minna á að fyrr í vetur  lagði Framsóknarflokkurinn fram sína eigin útgáfu af stjórnlagaþingi. Þar var gert ráð fyrir 63 fulltrúum og jafn mörgum varafulltrúum, sem starfa ættu í 6 mánuði. Miðað var við að fulltrúarnir væru í fullu starfi þann tíma sem þingið starfaði. Auk þess var í tillögu þeirra að stjórnarskrárákvæði að finna ítarlegar hugmyndir um útfærslu þingsins. Þetta frumvarp var lagt fram snemma í febrúar.

2. Önnur útgáfa – ríkisstjórnarflokkarnir leggja í púkkið
Mánuði síðar, í byrjun mars, tók Framsóknarflokkurinn þátt í framlagningu annars frumvarps til stjórnskipunarlaga en nú með ríkisstjórnarflokkunum og Frjálslynda flokknum. Þar var líka fjallað um stjórnlagaþing auk þess sem þar voru þrjár aðrar tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Þar var gert ráð fyrir 41 þingfulltrúa og jafn mörgum til vara. Kveðið var á um 18 mánaða starfstíma með möguleika á 6 mánaða framlengingu, en eins og í tillögu Framsóknarflokksins var miðað við að fulltrúarnir væru í fullu starfi. Bætt var við ákvæði um umsögn Alþingis um frumvarpið, auk þess að útfærslan var með ýmsum öðrum hætti frábrugðin hinni tæplega mánaðargömlu tillögu Framsóknarmanna. Meðal annars var miðað við að stjórnarskrárákvæðið væri mun fáorðara og fleiri atriði útfærð í almennum lögum. Drög að frumvarpi til slíkra laga var lagt fram sem fylgiskjal með frumvarpinu.

3. Þriðja útgáfa – breytingartillögur í nefndaráliti meiri hlutans
Tæplega mánuði síðar, 1. apríl sl., birtist svo þriðja útgáfan í nefndaráliti meiri hlutans í sérnefnd um stjórnarskrármál. Eins og getið er um hér í upphafi felur sú tillaga í sér ýmsar breytingar. Til dæmis er miðað við að það verði kosið mun síðar en áður var áformað eða samhliða sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. Miðað er við að þingið hefji störf 17. júní það ár og starfi aðeins í eitt ár. Gert er ráð fyrir sama fjölda fulltrúa og varafulltrúa, en samkvæmt nefndarálitinu er ekki lengur kveðið skýrt á um það að þeir skuli vera í fullu starfi. Ekki er tekin afstaða til þeirrar spurningar en einfaldlega sagt að meiri hlutinn telji vel koma til greina að þeir verði aðeins í einhvers konar hlutastarfi og að þingið starfi ekki samfellt eins og áður var miðað við heldur aðeins í fáa daga í senn, nokkrum sinnum yfir starfstímann. Meiri hluti nefndarinnar setur þetta raunar fremur fram sem vangaveltur en beinar tillögur og talar um að þetta verði bara útfært í almennum lögum. Í ljósi þess að formaður nefndarinnar lét fjármálaráðuneytið gera kostnaðarmat á grundvelli þessara hugmynda verður hins vegar að líta svo á að þetta sé sú hugmynd sem meiri hlutinn hefur um fyrirkomulag þingsins. Það er raunar líka í samræmi við málflutning formanns nefndarinnar í þinginu. Ef sú er hins vegar ekki raunin, er kostnaðarumsögnin sem ráðuneytið vann fyrir formanninn allsendis marklaus.

4. Hvað á fólkið eiginlega við?
En fleira í nefndarálitinu gerir útfærslu stjórnlagaþingsins enn óljósari en í upphaflegu frumvarpi. Þar er að finna eftirfarandi kafla:  
„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Þessi texti vekur ótal spurningar. Vill meiri hlutinn persónukjör eða ekki? Telur meiri hlutinn einhverja mótsögn felast í því að hafa viðhafa persónukjör og að á stjórnlagaþingi sitji „fulltrúar þjóðarinnar“? Það má alveg lesa út úr hinum tilvitnuðu orðum.  Vill meiri hlutinn að landið verði allt eitt kjördæmi í kosningum til stjórnlagaþings eða á að kjósa í fleiri kjördæmum? Hvað er annars átt við með því að tryggt verði að „fulltrúar landsbyggðar og landshluta“ eigi þar sæti? Hvernig á að nota jöfnunarsæti ef um persónukjör er að ræða? Hvernig á að tryggja að jafnt kynjahlutfall verði á þinginu? Öllum þessum spurningum er ósvarað.

Sennilega eru þetta bara merkingarlausar yfirlýsingar. Það læðist að manni sá grunur, að með þessum texta sé meiri hlutinn aðeins að reyna að koma til móts við ákveðnar gagnrýnisraddir á upphaflegar hugmyndir um stjórnlagaþing, án þess þó að hafa minnstu hugmynd um hvernig eigi að útfæra þessi markmið.

5. Óvissan aukin til muna
Breytingarnar, sem finna má í nefndaráliti meiri hlutans, eru eins og sjá má af þessu verulegar miðað við upphaflegt frumvarp. Ýmsum ákvæðum er beinlínis breytt, en jafnframt eru mun fleiri efnisþættir skildir eftir í óvissu og ákvörðunum vísað til síðari umfjöllunar og afgreiðslu. Verði þessar breytingartillögur að veruleika er þannig fjölgað til muna þeim óvissuþáttum, sem fylgja samþykkt frumvarpsins. Þingmenn eru með tilliti til breytinganna í miklu verri aðstöðu en áður til að átta sig á því hvers konar stofnun þeir eru að koma á fót. Slíkt getur ekki verið til bóta, því ætlast verður til þess í mikilvægum málum að þingmenn hafi nokkuð glögga hugmynd um það hvað samþykktir þeirra hafa í för með sér. Þetta á auðvitað sérstaklega við þegar fjallað er um stjórnarskrárbreytingar. Það að ætlast til þess að svona óútfærðar hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar séu samþykktar er auðvitað alveg ótækt.

Að lokum er nauðsynlegt að benda á, að með því að fara svona hring eftir hring í þessu máli eru fulltrúar meiri hlutans einfaldlega að sanna það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt frá upphafi: Þetta mál er vanhugsað og vanreifað og vilji menn á annað borð samþykkja ákvæði í stjórnarskrá um stjórnlagaþing þarf að ræða hugmyndina miklu betur og útfæra hana með einhverjum vitrænum hætti. Öllum er ljóst að það verður ekki gert í tímahraki á síðustu dögum þingsins, rétt fyrir kosningar.