Hvatvíslegar stjórnarskrárbreytingar og ráðlauslega staðið að verki
AMX 3. apríl 2009
Eftir Birgi Ármannsson
Í dag hófst 2. umræða á Alþingi um frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem flutt er af  forsætisráðherra, fjármálaráðherra, formanni Frjálslynda flokksins og varaformanni Framsóknarflokksins. Við sjálfstæðismenn höfum harðlega gagnrýnt allan aðdraganda og málsmeðferð vegna frumvarpsins, skort á samráði og hroðvirknisleg vinnubrögð. Við höfum lagt á það áherslu, að meira máli skipti að vanda til verka en að ljúka þessum breytingum þegar í stað.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og fylgiflokka þeirra í þinginu hafa sýnt því afar lítinn skilning þegar við höldum þessum sjónarmiðum á lofti og hafa gefið í skyn að á bak við varnaðarorð okkar búi einhverjar annarlegar hvatir.

Þetta er sérstaklega einkennilegur málflutningur af hálfu þessara þingmanna. Viðurkennt er í öllum þroskuðum lýðræðisríkjum að vanda skuli sérstaklega vel til undirbúnings og málsmeðferðar  vegna stjórnarskrárbreytinga. Hvarvetna er lögð sérstök áhersla á að um slíkar breytingar náist sem víðtækust samstaða og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar sé ekki dregin inn í flokkspólitískt dægurþras. Í nýlegum pistli mínum hér á þessum vettvangi vakti ég einmitt athygli á því hvernig Svíar og Finnar hafa staðið að undirbúningi stjórnarskrárbreytinga á síðustu árum. Vinnubrögð þeirra annars vegar og meirihlutaflokkanna á Alþingi hins vegar eru alveg eins og svart og hvítt.

Íslenskir stjórnskipunarfræðingar og stjórnmálamenn hafa hins vegar fram til þessa verið sammála um þessi grundvallarsjónarmið varðandi stjórnarskrárbreytingar. Þeir hafa lagt áherslu á vönduð vinnubrögð, stöðugleika stjórnskipunarinnar og víðtæka samstöðu.  Í tilefni af umræðunum á Alþingi er full ástæða til að rifja upp nokkur ummæli þeirra.

Gunnar Thoroddsen sagði í Andvaragrein 1974:

„Mikils þykir um vert að grundvallaratriðum í stjórnskipun landsins sé ekki haggað að ófyrirsynju, heldur hugað vel að breytingum áður en þær taka gildi.“

Það þarf heldur ekki að fletta lengi í Deildum Alþingis eftir Bjarna Benediktsson til að sjá tilvitnanir þar sem hann varar við hvatvíslegum breytingum á stjórnarskrá og varar við því að ráðlauslega sé staðið að verki, eins og hann orðar það. Bjarni telur að vísu að deildaskipting Alþingis, sem þá var við lýði, og tryggði að frumvörp fengju sex umræður í þinginu, þrjár í hvorri deild, væri ákveðinn hemill á þetta. Því fyrirkomulagi var breytt fyrir 18 árum. En rauði þráðurinn hjá Bjarna er þessi: Hann varar við hvatvíslegum breytingum og því að ráðlauslega sé staðið að verki.

Sömu sjónarmið má sjá í umfjöllun Ólafs Jóhannessonar í Stjórnskipun Íslands frá 1968, þar sem hann vísar til þess að stjórnarskrárbreytingar skuli gera með öðrum og vandaðri hætti en aðrar lagabreytingar.  Gunnar Schram segir svo í Stjórnskipunarrétti frá 1997:

„Hyggja þarf vel að fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til þess að gaumgæfa þær breytingar sem á henni eru gerðar.“

Bjarni Benediktsson sagði síðan í ræðu frá 1953 sem birtist í ritsafninu Landi og lýðveldi:

„Ég legg áherslu á, að stjórnarskrármálið er mál, sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði. Það er alþjóðarmál, sem meta verður með langa framtíð fyrir augum, en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir.“

Og síðar í ræðunni segir Bjarni:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðarmál að ræða, fremur en flokksmál, þá tel ég og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig til hlítar á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði, sem skaplegt samkomulag gæti fengist um, svo að hin nýja stjórnarskrá geti orðið hornsteinn hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð.“

Hannibal Valdimarsson orðaði nákvæmlega sömu hugsun og Bjarni í Andvaragrein 1974. Hann sagði:

„Annars er það ekki aðalatriði hvenær endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið heldur hitt, hversu vel tekst til um sjálfa framkvæmd verksins.“

Hér er um að ræða stjórnmálamenn, sem einnig voru allir um langt skeið prófessorar í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, að Hannibal Valdimarssyni einum undanskildum. Það væri óskandi að þeir sem nú mynda meiri hluta á Alþingi í stjórnarskrármálinu tækju eitthvert mark á þeim sjónarmiðum sem þarna birtast. Þá myndu þeir vafalaust staldra við og falla frá áformum um að keyra stjórnarskrárbreytingarnar í gegn á örfáum dögum, í tímahraki rétt fyrir kosningar.