Efnahagsmálin og innlegg Davíðs

21. október 2006
Afar jákvæðar fréttir berast nú með reglulegu millibili af efnahagsmálum hér á landi. Komið hefur í ljós að hagvöxtur var mun meiri á síðasta ári en áður var talið og hagvöxtur á þessu ári hefur einnig verið góður, þótt hann jafnist ekki á við gífurlegan vöxt síðustu tveggja ára. Verðbólga fór vissulega yfir þau mörk sem æskilegt hefði verið seinni hluta sumars, en er þegar farin að lækka - og það hraðar en gert hafði verið ráð fyrir, samanber spár greiningardeilda bankanna. Og þrátt fyrir þetta verðbólguskot hefur kaupmáttur launa vaxið stöðugt, eftir mikinn og ánægjulegan vöxt í rúman áratug.

Þetta er þó ekki allt. Eitt af því gleðilegasta í hagtölum hér á landi er lágt atvinnuleysi, en Vinnumálastofnun sendi frá sér tölur í dag þar sem sést að atvinnuleysi er nánast ekkert. Það var 1,2% fyrir mánuði en er nú 1% og það hlýtur að vera með öllu óraunhæft að fara fram á meiri árangur en þetta.

En um leið og maður fagnar góðærinu er sjálfsagt að taka undir varnaðarorð um þenslu. Ekki síst þegar þau koma frá Davíð Oddssyni seðlabankastjóra, eins og lesa mátti um í Viðskiptablaðinu í dag. Hann lýsir m.a. áhyggjum af því að framkvæmdum hafi verið frestað í of skamman tíma og þessi varnaðarorð er sjálfsagt að taka alvarlega. Og aðhald í ríkisrekstri á raunar ekki aðeins við um þær stóru framkvæmdir sem frestað hefur verið. Við verðum að sýna aðhald á öllum sviðum, ekki aðeins til að sporna gegn of mikilli þenslu í efnahagslífinu, heldur ekki síður til að auðvelda áframhaldandi skattalækkanir.