Horft til Höfða

13. október 2006
Afmælis leiðtogafundarins í Höfða er minnst með ýmsum hætti þessa dagana. Menn virðast nú almennt sammála um að þýðing hans hafi verið meiri en sýndist í fyrstu og má segja að með honum hafi ísinn verið brotinn milli leiðtoga stórveldanna, Reagans og Gorbatsjovs. Valdaskeið þess síðarnefnda í Sovétríkjunum er reyndar afar athyglisvert frá sögulegu sjónarhorni enda varð umheimurinn þá vitni að fjörbrotum stjórnkerfis kommúnista í þessu mikla ríki.

Ekki er ástæða til efast um að Gorbatsjov hafði ýmsar hugmyndir um umbætur og tilslakanir innan ramma þess kerfis, en það voru ekki þær hugmyndir sem urðu þess valdandi að Sovétríkin leystust upp og misstu tökin í Austur-Evrópu. Skýringin er miklu frekar sú að alræðiskerfið í þessum heimshluta var orðið gjaldþrota efnahagslega, siðferðislega og pólitískt. Vestræn ríki undir forystu Reagans og Thatchers höfðu borið gæfu til að standa fast á sínu í samskiptum við Sovétríkin og það neyddi valdamenn þar til að horfast í augu við dvínandi hernaðarmátt sinn sem ekki síst mátti rekja til vandræða á sviði efnahagsmála. Hagskipulag kommúnistaríkjanna var sjúkt og gat ekki staðið til langframa. Þegar minni ógn stóð af sovétvaldinu og veikleikar efnahagskerfisins urðu sífellt ljósari reyndist leppstjórnunum í Austur-Evrópu ómögulegt að standa lengur gegn kröfum borgaranna um aukið frelsi og mannréttindi. Þar með fór af stað þróun sem ekki varð stöðvuð. Kommúnistar hröktust frá völdum í hverju landinu á fætur öðru, lýðræði og frjálst markaðskerfi ruddi sér til rúms, Járntjaldið sem skipt hafði Evrópu í tvennt, féll og Kalda stríðinu lauk. Þessari þróun er ekki lokið. Fyrrum kommúnistaríki í Mið- og Austur-Evrópu eiga enn í margvíslegum erfiðleikum. Þrátt fyrir augljósar framfarir á sviði efnahagsmála standa lífskjör í mörgum þessara landa enn langt að baki því sem við eigum að venjast á Vesturlöndum. Sums staðar er lýðræðiskerfið enn veikburða og spilling útbreidd. Þótt alræðisskipulagið sjálft hryndi til grunna á örfáum árum mun taka langan tíma að bæta þann skaða sem það olli.

Fundur þeirra Reagans og Gorbatstjovs er mér sérstaklega hugleikinn þessa dagana þar sem Höfði blasir við út um gluggann á kosningaskrifstofu minni að Sætúni 8. Þeir sem eiga leið í þetta merka hús eru að sjálfsögðu velkomnir á skrifstofuna, en um helgina verður þar boðið upp á kaffi, meðlæti og pólitískt spjall.