Skattalækkanir í þágu heimilanna

Birtist í Blaðinu 12. október 2006
Þrátt fyrir allar þær umræður sem fram hafa farið um lækkun matarverðs í landinu á undanförnum árum er eins og fjölmiðlar og stjórnmálamenn átti sig almennt ekki á því hversu róttækar tillögur ríkisstjórnin hefur lagt fram í þá átt. Um er að ræða fyrstu verulegu breytingarnar á virðisaukaskattinum í 14 ár. Skatthlutfallið í neðra þrepinu verður lækkað um helming og þeim flokkum vöru og þjónustu sem lenda í neðra þrepinu fjölgað til muna. Samhliða verða vörugjöld á mörgum tegundum afnumin, auk breytinga á tollum og fleiri þáttum sem einnig munu stuðla að lækkun verðs á matvælum. Samanlagt er gert ráð fyrir að þessar breytingar geti lækkað matarverðið í landinu um allt að 16%. Enn fremur verður um að ræða samræmingu og einföldun í skattlagningu á þessu sviði. Einhvern tímann hefði þetta þótt saga til næsta bæjar. Æði oft hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar rokið upp í ræðustól við upphaf þingfundar eða gert háværar kröfur um utandagskrárumræður af minna tilefni, en ekki nú. Hvað skyldi valda því?

Meiri skattalækkun en lofað var

Fyrir okkur sjálfstæðismenn er þetta auðvitað afar jákvæð niðurstaða. Við lögðum mikla áherslu á það fyrir síðustu kosningar að á kjörtímabilinu myndum við lækka neðra þrep virðisaukaskattsins úr 14% í 7%. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var þessi stefna ekki jafn skýr, enda höfðu stjórnarflokkarnir mismunandi hugmyndir um útfærsluna. Báðir gátu hins vegar skrifað upp á fyrirheit um að breyta virðisaukaskattinum almenningi til hagsbóta. Nú liggur niðurstaðan fyrir og í henni felst talsvert meiri lækkun þessara skatta en Sjálfstæðisflokkurinn lofaði í kosningabaráttunni. Það eru bæði söguleg og ánægjuleg tíðindi. Undir það taka reyndar ýmsir talsmenn stjórnarandstöðunnar en reyna um leið að beina athyglinni að einhverju öðru. Þeir vilja skipta um umræðuefni, enda hlýtur þeim að finnast málstaður ríkisstjórnarinnar í þessum efnum óþægilega góður.

Valkostur Samfylkingarinnar

Annars er alltaf dálítið merkilegt að heyra Samfylkingarmenn tala um lækkun matarskatts og matvælaverðs eins og þeir eigi einkarétt á því máli. Ég rifjaði upp á þessum vettvangi fyrir skömmu að fyrir kosningarnar 2003 settu þeir ekki fram skýra stefnu í þessu máli fyrr en við sjálfstæðismenn vorum búnir að samþykkja á landsfundi að neðra þrepið skyldi lækka úr 14% í 7%. Á þessu kjörtímabili hafa þingmenn þeirra vissulega borið fram frumvörp í þessa veru á hverju einasta hausti, jafnan með þeim formerkjum að það væri sú skattalækkun sem þeir byðu upp á sem valkost við þær skattalækkanir sem við í ríkisstjórnarflokkunum vorum að berjast fyrir hverju sinni. Þegar við stigum fyrsta skrefið við lækkun tekjuskattsins steig Samfylkingin fram og sagðist frekar vilja lækka matarskattinn - það kostaði um það bil jafn mikið. Þegar við tókum annað skrefið var málflutningurinn sá sami. Og þegar Samfylkingin kynnti tillögur um þessa lækkun í síðasta mánuði kom formaður flokksins í þriðja sinn og sagði að þær ættu að koma í stað fyrirhugaðrar tekjuskattslækkunar um næstu áramót.

Af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er hins vegar ekki boðið upp á lækkun skatta á matvæli sem valkost við lækkun annarra skatta. Þær koma til viðbótar – heimilunum í landinu til hagsbóta.