Lækkun matarskatts og fleiri góð mál

10. október 2006
Tíðindi dagsins eru að sjálfsögðu tillögur ríkisstjórnarflokkanna um skattalækkanir með það að markmiði að lækka matarverð í landinu. Þessar tillögur eru í nokkrum liðum en mestu munar að sjálfsögðu um lækkun á virðisaukaskatti niður í 7% á mat og aðrar vörur og þjónustu sem nú bera 14% skatt. Þetta var skýrt loforð okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og er fagnaðarefni að samtaða náðist í ríkisstjórninni um að klára málið á kjörtímabilinu. Það er líka ánægjuefni að allar matvörur verða færðar í neðra virðisaukaskattsþrepið en hingað til hafa ýmsar þeirra borið 24,5% skatt.

Þetta er til þess fallið að einfalda þessa skattlagningu og sama tilgangi þjónar sú tillaga, að fella niður vörugjöld á matvörur að undanskildum svokölluðum sykurvörum. Ég tel reyndar að stíga hefði átt skrefið til fulls og afnema öll vörugjöld á matvörur, en um það hefur hins vegar ekki náðst pólitísk samstaða á grundvelli manneldissjónarmiða. Hvað um það, þetta er stórt skref í rétta átt. Þá eru loks lagðar til breytingar á tollum á innfluttum kjötvörum og sagt frá áformum um frekari tollalaækkanir með það að markmiði að lækka matarverð, en ríkisstjórnin hefur ekki enn sýnt á spilin í þeim efnum, þannig að erfiaðara er að meta þá þætti.
Það er alveg ljóst að við sjálfstæðismenn getum vel við þessar breytingar unað. Þær eru í samræmi við stefnu okkar fyrir síðustu kosningar og ganga raunar lengra en við treystum okkur til að lofa á þeim tíma. Almenningur í landinu mun fá verulegar hagsbætur vegna þessara skattalækkana og ljóst er af fjárlagafrumvarpinu að þær er hægt að framkvæma án þess að tefla afkomu ríkissjóðs í tvísýnu. Samfylkingin stendur nú uppi ráðþrota í þessum málum; lækkun matarverðs áttti að vera stærsta tromp þeirra á þessu þingi, en ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú sýnt að þeir treysta sér til að gera mun betur. Hins vegar koma ummæli dagsins um þetta mál ekki úr röðum Samfylkingarmanna. Þau má lesa á vefriti framsóknarmanna timinn.is. Þar er fjallað um tillögur ríkisstjórnarinnar undir fyrirsögninni "Framsókn lækkar matvælaverð". Það er nefnilega það!