Framtíðarsýn eða afstöðuleysi

Birtist í Blaðinu 7. október 2006
Mikil vertíð er nú hafin hjá okkur þingmönnum og öðrum áhugamönnum um stjórnmál. Þing er hafið og ljóst að störf þess munu einkennast af undirbúningi kosninganna í vor. Prófkjörsundirbúningur er víða hafinn og frambjóðendur munu á næstu vikum leitast við að skerpa áherslur sínar og marka sér stöðu út frá skoðunum, persónuleika og öðrum þáttum. Samhliða því munu flokkarnir fara að sýna á spilin fyrir kosningabaráttuna. Allt þetta ferli er mikilvægt fyrir lýðræðið, enda snýst stjórnmálabaráttan bæði um einstaklinga og stefnumál og mikilvægt að valkostir kjósenda séu skýrir í því sambandi.

Vilja menn hærri skatta eða skattalækkanir? Vilja menn auka umsvif hins opinbera eða gefa einkaaðilum meira svigrúm? Vilja menn auka frjálsræði í viðskiptalífinu eða telja menn höft og hömlur nauðsynlegar? Vilja menn tryggja varnir landsins með raunhæfum hætti eða finnst mönnum engin þörf á því? Vilja menn samræma umhverfisvernd og auðlindanýtingu eða telja menn útilokað að þetta tvennt geti farið saman? Flokkar og frambjóðendur verða að vera reiðubúnir að tjá afstöðu sína til þessara spurninga og fjölmargra annarra.

Miðjusækni og miðjumoð

Þeir sem ekki geta svarað svona spurningum lenda auðvitað í miklum tilvistarvanda. Það er ekki nóg að svara því til, að menn vilji finna farsælustu lausnina á aðsteðjandi vandamálum út frá réttlæti, sanngirni og hagsmunum þjóðfélagsins í heild. Hver vill það ekki? Svör af því tagi veita kjósendum enga leiðsögn um það hvers vænta megi af viðkomandi flokki komist hann til valda og skortur á skýrri grundvallarstefnu flækist líka fyrir mönnum í hvert skipti sem taka þarf afstöðu til einhverra mála. Miðjusækni er mikið tískuorð í umfjöllun um stjórnmál um þessar mundir, en það er ekki alltaf skýrt hvað átt við í því sambandi.  Það er auðvitað ljóst að flokkar sem ætla sér að vera stórir þurfa að gæta þess að stefna þeirra eigi hljómgrunn hjá breiðum hópi kjósenda. Hitt er jafnljóst, að flokkar sem reyna að fara bil beggja í öllum helstu deilumálum lenda fljótt í því að stefna þeirra verður moð, sem ekki höfðar til nokkurs manns.

Gallup-pólitík

Það er heldur ekki nóg að ætla að byggja stefnu sína á niðurstöðum skoðanakannana og viðhorfsmælinga frá einni viku til annarrar. Reynslan sýnir að flokkar sem ávallt reyna að eltast við tískusveiflur og meintan vilja almennings á hverjum tíma lenda fljótt í vandræðum. Þeir geta rokið upp í skoðanakönnunum og dottið niður jafn hratt og skortir alla fótfestu þegar takast þarf á við vandasöm mál. Kjósendur eru fljótir að átta sig á taugaveiklun og hentistefnu af því tagi. Hugsanlegir samstarfsflokkar taka slíkri Gallup-pólitík líka með fyrirvara. Það getur verið betra að eiga samstarf við einhvern sem er ósammála þér ef treysta má því að samkomulagið standi, heldur en tækifærissinnann, sem allt eins er líklegur til að hlaupa frá niðurstöðunni um leið og hún mætir einhverri mótspyrnu í samfélaginu. Harðlínumenn, sem aldrei eru tilbúnir til að gefa eftir, eru auðvitað lítt samstarfshæfir, en það sama á auðvitað við um þá sem ekki er hægt að treysta til að standa við gerða samninga.

Stjórnmál eru list hins mögulega og til að ná niðurstöðu þarf oft að gera málamiðlanir milli flokka og jafnvel innan flokka. Það léttir þó ekki af stjórnmálamönnum þeirri skyldu að marka sér skýra stefnu og kynna hana fyrir kjósendum. Í dagsins önn þurfa menn vissulega stundum að taka krók á sig til að komast eitthvað áleiðis. En ef menn hafa ekki hugmynd um hvert þeir ætla sér munu þeir aldrei ná áfangastað.