Höfundarréttur að stjórnmálahugmyndum

Birtist í Blaðinu 28. september 2006
Stjórnmálabaráttan tekur stundum á sig skrýtnar myndir. Að undanförnu höfum við séð tvö áhugaverð dæmi um það, sem bæði tengjast Samfylkingunni, þótt vissulega komi fleiri við sögu. Í báðum tilvikum snýst deilan ekki um stefnumálin eða tillögurnar sem slíkar, heldur fremur um höfundarrétt að hugmyndunum.

Einkaleyfi á umhverfisstefnu

Fyrra málið tengdist umhverfismálum. Eftir að þingflokkur Samfylkingarinnar kynnti umhverfisstefnu sína á dögunum brugðust Vinstri grænir ókvæða við og töldu að þarna væri beinlínis um að ræða tilraun til að hnupla helsta baráttumáli sínu. Samfylkingin væri ótrúverðug í ljósi fyrri verka á þingi og í sveitarstjórnum og flokkurinn væri aðeins að reyna að gera út á tískustrauma í samfélaginu í aðdraganda kosninga. Samfylkingarmenn hafa á móti bent á að Rannveig, Þórunn og Mörður hafi talsvert haft sig frami í þessum málum, en eiga samt sem áður í erfiðleikum með að útskýra stefnubreytingu annarra kjörinna fulltrúa sinna.

Vafalaust hafa báðir nokkuð til síns máls. Samfylkingin á við trúverðugleikavanda að stríða í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum og ýmislegt bendir til að stefna flokksins hafi í ýmsum efnum mótast af sömu sjónarmiðum og fram koma af hálfu Vinstri grænna. Vinstri grænir eru líka helst til frekir þegar þeir halda fram einkarétti sínum til að fjalla um umhverfismál. Því hafa áhugamenn um málaflokkinn úr öllum stjórnmálaflokkum fengið að kynnast.

Skattalækkun á matvæli

En flokkurinn sem hafnar eignarrétti Vinstri grænna á hugmyndum á sviði umhverfismála hefur síðustu daga staðið í mikilli baráttu til að verja meintan höfundarrétt sinn á tillögum um lækkun matarskatts. Gagnrýni þeirra hefur annars vegar beinst að ríkisstjórninni, sem eins og kunnugt er vinnur nú að útfærslu hugmynda um skattalagabreytingar til að lækka matarverð, og hins vegar að okkur, nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem höfum fjallað um þetta mál í fjölmiðlum. Má helst skilja málflutning Samfylkingarmanna svo, að við höfum engan rétt til að láta í ljós sjónarmið um þetta efni, þar sem Samfylkingin hafi fundið upp málið.

Nú er það skoðun mín að ekki skipti öllu máli hvaðan gott kemur. Hins vegar er nauðsynlegt af þessu tilefni að rifja upp að lækkun matarskatts úr 14% í 7% var stefnumál Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar. Sú stefnumörkun var samþykkt á landsfundi í lok mars 2003. Kosningastefna Samfylkingarinnar var kynnt snemma í apríl og var þar vissulega að finna tillögur um sambærilega lækkun. Fyrir þann tíma lá ekki fyrir skýr stefna af hálfu flokksins í þeim efnum frekar en öðrum skattamálum. Skattamál höfðu raunar verið mjög til umræðu á þessum tíma en til þess var tekið að frambjóðendur Samfylkingarinnar virtust ekki hafa neina hugmynd um hvaða atriði flokkurinn ætlaði að setja á oddinn í þessum efnum. Það var allt í mótun og ekkert ákveðið.

Eftir kosningar var um það samið milli ríkisstjórnarflokkanna að taka virðisaukaskattinn til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta hag almennings. Sú vinna stendur yfir og hefur komið fram að niðurstöðu er að vænta fljótlega, en því er auðvitað ekki að leyna að ég og fleiri hefðum kosið að niðurstaða fengist fyrr. En því má heldur ekki gleyma að allt þetta kjörtímabil hafa ríkisstjórnarflokkarnir unnið að skattalækkunum - skref fyrir skref  - öllum almenningi til hagsbóta. Frá upphafi lá fyrir að breytingar varðandi skattlagningu matvæla kæmust á dagskrá á síðari hluta tímabilsins enda var ljóst að meiri vinnu þyrfti að leggja í útfærslu á því sviði en t.d. tekjuskattinn, þar sem meiri samhljómur var milli stjórnarflokkanna fyrir kosningar. Enn fremur var öllum ljóst að aldrei var raunhæft að reikna með að allar skattalækkanirnar kæmu til framkvæmda á sama tíma.

 

En það er auðvitað niðurstaðan sem skiptir máli fyrir almenning í landinu. Þegar hún liggur fyrir sjá allir að höfundarréttardeilan er hártogun ein.