Áherslur
22. september 2006
Jafnræði fyrir lögum
Einstaklingar eiga að njóta jafnræðis gagnvart lögum. Hvers kyns sérréttindi verður að afnema. Það þarf að jafna atkvæðisrétt landsmanna, því þrátt fyrir skref í rétta átt við síðustu kosningar hallar enn verulega á íbúa þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins. Hringlandi í kjördæmaskipan líkt og Reykvíkingar þurfa að sæta er þeim síst til hagsbóta. Ég vil sameina Reykjavíkurkjördæmin á ný.
Viðskiptafrelsi til allra átta
Íslendingum hefur farnast best þegar viðskiptafrelsið hefur verið sem mest. Fáar þjóðir eiga jafnmikið undir hindrunarlausum viðskiptum milli landa og Íslendingar. Við eigum að hafa frjáls viðskipti við sem allra flestar þjóðir og varast að lokast innan tollmúra viðskiptablokka. Slíkir múrar loka Íslendinga inni og verðlauna þá sem lakast standa sig.

Lækkum tekjuskatt einstaklinga

Það á að lækka tekjuskatt einstaklinga í 18% líkt og þegar gerist hjá lögaðilum. Fyrir nokkrum árum þegar skattar á fyrirtæki voru um 50% hagnaðar, og skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum voru miklu minni en þær eru nú, þorðu menn ekki einu sinni að láta sig dreyma um að skatturinn færi nokkurn tímann niður í jafnlágt hlutfall og nú er raunin. Nú hefur þetta náðst og um leið og rétt er að fagna því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa lækkað skatthlutfall á einstaklinga verulega á þessu kjörtímabili verður að leggja áherslu á að verkinu er alls ekki lokið.
Athafnalífið er forsenda hagsældar

Áfram verði unnið að bættu starfsumhverfi fyrirtækja með umbótum í skattkerfinu. Umbætur síðustu ára í starfsumhverfi fyrirtækja eiga mikinn þátt í einu mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Áfram skal haldið á sömu braut og stefnt að því að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja verði með því hagstæðasta sem þekkist.

Aukum valfrelsi og sveigjanleika í lífeyrismálum

Ólíkt þjóðum innan Evrópusambandsins er staða Íslendinga í lífeyrismálum sterk. Spár gera ráð fyrir að árið 2040 verði eignir íslenskra lífeyrissjóða um 150% af landsframleiðslu. Sömu spár gera ráð fyrir að í löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi og Spáni verði þetta hlutfall innan við 5%. Það blasir því við mikill lífeyrisvandi í þessum löndum en staða Íslendinga er sterk. Við þurfum hins vegar að virkja samkeppni í þessum málum eins og svo mörgum öðrum með auknu valfrelsi þeirra sem greiða í lífeyrissjóði.

Grisjum í laga- og reglugerðafrumskóginum

Fátt er eins hamlandi á einstaklingsframtakið og flóknar reglur og langir lagabálkar. Reglugerðafargan má ekki koma í veg fyrir að einstaklingarnir finni framtaki sínu farveg. Sporna þarf við vaxandi tilhneigingu til að leysa öll mál með nýjum lögum og reglum í stað þess að treysta á óskráðar reglur í samskiptum einstaklinga og ábyrgð einstaklinganna sjálfra. Það á ekki að vera sjálfgefið að ríkið setji ítarlegar reglur um öll mál og geri einstaklingana þar með andvaralausa um stöðu sína.

Lækkum vöruverð með afnámi tolla og innflutningshafta

Innflutningshöft og tollar eru sjálfskaparvíti okkar Íslendinga þótt við séum ekki ein á báti í því skipbroti. Viðskiptahöft leiða til hærra vöruverðs og lakara úrvals, tíminn og skriffinnskan í tollafgreiðslunni leiðir til sóunar á verðmætum og vinnuafli, en á sama tíma og tollverðir eru önnum kafnir við tollflokkun tannkrems, grænmetis og nætursjónauka mæta brýnni verkefni afgangi. Ákvörðun um afnám tolla og innflutningshafta er í höndum okkar sjálfra og kemur sú ákvörðun ekki nokkrum tollabandalögum við. Við þurfum að nýta kosti frjálsra viðskipta á öllum sviðum. Göngum af festu til þess verks.

Aukið einstaklingsframtak í heilbrigðismálum

Þótt sameiginlegir sjóðir beri kostnað í heilbrigðismálum er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að reka þjónustuna. Það er hefð fyrir einstaklingsframtaki í heilbrigðisþjónustunni og við eigum að nýta það í auknum mæli. Þannig nýtast betur þeir fjármunir sem við höfum úr að spila. Úrræði í heilbrigðiskerfinu eiga að felast í uppskurði þess fremur en niðurskurði.

Niðurfelling stimpilgjalda

Stimpilgjöld eru vondur arfur löngu horfins lénskerfis í erlendum löndum, en þau eru þægilegur tekjustofn og því þrífast þau enn. Þessi nauðung bitnar bæði á einstaklingum og fyrirtækjum. Innheimta stimpilgjalda er dæmi um úr sér gengna skattheimtu. Gjaldið er innheimt af ýmsum íslenskum viðskiptaskjölum svo sem kaupsamningum, afsölum, verðbréfum, leigusamningum o.fl. Stimpilgjöldin eru þannig viðbótarskattheimta á íbúðarkaupendur og aðra lántakendur. Skattheimta af þessu tagi hefur verið á hröðu undanhaldi í ríkjum OECD og því veikir innheimta þeirra hér samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Aukið einstaklingsframtak í menntamálum

Nýta þarf í auknum mæli kosti einstaklingsframtaks í menntamálum. Þetta er gert nú þegar með góðum árangri. Með því að virkja kosti einstaklingsframtaksins má nýta betur þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar í þessum málaflokkum. Samkeppni leiðir einnig til nýjunga og frumkvæðis.

Tryggar varnir á óvissutímum
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin urðu til þess að Ísland komst klakklaust í gegnum Kalda stríðið. Nú er svo komið að Íslendingar geta sjálfir annast ýmsa þætti landvarna, en að öðru leyti treystum við enn á bandamenn okkar, beggja vegna Atlantsála. Brottför varnarliðsins breytir myndinni vissulega mikið og verkefnið nú er að mæta þeirri nýju stöðu með ábyrgum hætti. Áframhaldandi tvíhliða samstarf við Bandaríkin, þótt í breyttri mynd sé, er langraunhæfasti kosturinn í stöðunni um þessar mundir og þurfum við að tryggja hagsmuni Íslands á þeim grundvelli.

Varnasamstarfið á síðustu öld sneri ekki einvörðungu að því að tryggja varnir Íslands, heldur ennfremur því að Íslendingar skipuðu sér á bekk með vestrænum lýðræðisþjóðum og tóku einarða afstöðu gegn alræðisöflunum í austri.
Nú hafa önnur öfl, jafnvel enn öfgafyllri, sagt vestrænu lýðræði stríð á hendur. Íslendingar eiga nú sem fyrr að standa með nánustu bandamönnum sínum: taka afstöðu með lýðræðinu gegn ofstæki og ofbeldi.