Ögmundur Jónasson og þotuliðið
Viðhorf – Birgir Ármannsson
Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verður seint sakaður um að fara með veggjum eða tala tæpitungu þegar hann lætur í ljós álit sitt á málefnum líðandi stundar. Hann heldur úti heimasíðu, sem er persónulegt málgagn hans, og er óhætt að mæla með henni sem skyldulesningu fyrir áhugamenn um þjóðmál. Oftast nær er ég hjartanlega ósammála skrifum hans enda er hann meðal skeleggustu talsmanna fyrir hið "villta vinstri" í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst hins vegar virðingarvert að hann segir skoðanir sínar umbúðalaust og enginn þarf að efast um afstöðu hans eða flokks hans til einstakra mála. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um suma aðra flokka á vinstri vængnum.
Strákar og stelpur í silkigöllum
Fyrir stuttu birtust á heimasíðu Ögmundar skrif, sem ekki verða skilin öðruvísi en svo, að þar hafi hann metið léttvægt framlag fjármálamarkaðarins til íslensks efnahagslífs. Hann vísar til þess að tekjumunur í samfélaginu hafi aukist m.a. vegna aukinna umsvifa fyrirtækja á þessu sviði á alþjóðavettvangi og segir í því sambandi: "Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi."

Skilaboðin verða vart misskilin. Það hlýtur að mati Ögmundar að vera réttlætanlegt að þrengja starfsskilyrði fjármálafyrirtækja, jafnvel svo að þau flytjist úr landi, ef það gæti orðið til að auka hér jöfnuð í tekjuskiptingu. Sama á líklega við um önnur þau fyrirtæki íslensk, sem haslað hafa sér völl á alþjóðavettvangi, náð verulegum árangri og umbunað stjórnendum og starfsfólki í samræmi við það. Það skiptir samkvæmt þessu ekki miklu, að þessi þróun hefur orðið til að stækka skattstofna hins opinbera verulega, fyrirtækin greiða mun hærri upphæðir í tekjuskatta en áður þrátt fyrir lægri skatthlutföll, sama á við um einstaklingana og skattar á fjármagnstekjur eru orðnir mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð, en slíkar tekjur voru fyrir tíu árum ýmist ekki skattskyldar, eins og átti við um vaxtatekjur, eða skiluðu óverulegum tekjum til ríkisins þrátt fyrir há skatthlutföll, eins og átti við um skatta á arð og söluhagnað af hlutabréfum. Það er trúlega líka léttvægt í huga Ögmundar, að innan fyrirtækjanna, sem hér er vísað til, hafa á undanförnum árum orðið til ótal vel launuð, áhugaverð og fjölbreytt störf. Það er áreiðanlega léttvægt í augum Ögmundar, enda er fólkið hjá þessum fyrirtækjum bara "nokkrir strákar og stelpur í silkigöllum; þotulið."

Alltaf á móti þróuninni
Þessi skoðun Ögmundar Jónassonar og flokksfélaga hans þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Þeir hafa jafnan beitt sér gegn þeim breytingum á lögum og starfsumhverfi, sem stuðlað hafa að vexti og uppgangi fyrirtækjanna sem hér um ræðir. Þeir voru á móti EES-aðild og opnun markaða sem henni fylgdi. Þeir lögðust gegn einkavæðingu bankanna, sem leysti mikla krafta úr læðingi á fjármálamarkaðnum. Þeir hafa alltaf lagst gegn skattalækkunum, sem hafa líka skipt verulegu máli í þessu sambandi. Þeir hafa í flestum atriðum verið á móti þeirri  þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs, sem átt hefur sér stað á síðustu árum.  

Ég þarf væntanlega ekki að taka fram að ég er í grundvallaratriðum ósammála þessum viðhorfum Ögmundar og félaga. Ég virði þá hins vegar fyrir að vera sjálfum sér samkvæmir. Maður veit að minnsta kosti hvar maður hefur þá og hvers má af þeim vænta komist þeir til valda. Það er ekki svo lítils virði í stjórnmálum.
 

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.